7.10.2013

Markmiðin eru skýr

Nú liggur fyrir skýr afstaða VM um aðkomu félagsins að endurnýjun komandi kjarasamninga. Félagið vill fá kjaraviðræður við fulltrúa þeirra atvinnugreina þar sem félagsmenn VM starfa.

Eftir fjölmenna og öfluga kjararáðstefnu daganna 4. og 5. október, var það einróma niðurstaða að félagið ætlar ekki að taka þátt í samræmdri launastefnu. Niðurstaðan endurspeglar könnun sem gerð var meðal félagsmanna, þar sem meirihlutinn vill að þessi leið verði farin. Við viljum fá athygli á kjör okkar félagsmanna á okkar forsendum.

Með því að fara í mikla og góða undirbúningsvinnu fyrir kjarasamningagerðina, sem staðið hefur yfir í eitt og hálft ár, erum við tilbúnir að fara inn í þessa vinnu á okkar forsendum með okkar viðsemjendur. Við ætlum ekki að festast í meðaltölum og miðstýringu SA og láta kjörin versna og versna. Við ætlum ekki heldur að sætta okkur við það að fyrirtæki með góða afkomu séu að framkalla kjararýrnun hjá okkar félagsmönnum í skjóli SA. Kjararýrnun okkar stétta er áhyggjuefni og atvinnurekendur í þessum greinum eru búnir að átta sig á stöðunni, það verði að snúa þessari þróun við, gera róttækar breytingar á öllum sviðum til að halda í og fá hæft starfsfólk.

Áratuga sönginn um að nú sé ekki rétti tíminn til að laga kjörin nú, ætlum við ekki að hlusta á lengur. Heldur syngja hátt, við ætlum að lagfæra kjörinn núna. Horfast í augu við raunveruleikann og segja að mannsæmandi dagvinnulaun með hóflegum vinnutíma eigi að vera hornsteinn þess samfélags sem við viljum búa í. Dagvinnulaun sem hægt er að lifa af eiga vera einn af hornsteinum þess samfélags sem við ætlum að byggja upp eftir hrunið. Í dag erum við hjá VM með dagvinnulaunataxta hjá fimm ára sveini upp á
287,202 krónur (með orlofi gera það 323,932 krónur). Eftir skatta og önnur gjöld fær viðkomandi greidd út laun upp á 198,462 krónur. Hvernig einstaklingur á að framfleyta sér á þessu, hvað þá að framfleyta fjölskyldu, skiljum við ekki. Við verðum að horfast í augu við raunveruleikann ef við ætlum að finna lausnir. Er hægt að tengja þessar tölur inn í auð íslensks samfélags? Er ekki vitlaust gefið?

Við gerum okkur fulla grein fyrir því að til þess að fyrirtæki geti greitt góð laun þurfa þau að hafa afkomu til þess. Þess vegna var það stór hluti af undirbúningsvinnu VM að skoða stöðu fyrirtækja í okkar greinum og við getum fullyrt það að vél- og málmtæknin er undirverðlögð inn í hagkerfið og haldið niðri. Að útseld vinna hjá stóru og virtu vél- og málmtæknifyrirtæki sé einn þriðji af útseldri vinnu margra þjónustufyrirtækja er eitthvað sem þessi atvinnugrein á ekki að sætta sig við og mun ekki lifa af til lengdar. Við greiningu á stöðu fyrirtækjanna kemur í ljós að heljartak stórra atvinnugreina sem þessi fyrirtækja þjóna er aðdáunarverð. Kennitöluflakksfyrirtæki og gengdarlaus undirboð er það sem þessi fyrirtæki nota og ekki síður ríki og sveitarfélög til að keyra allt niður.
Kennitöluflakk fyrirtækja er meinsemd í íslensku hagkerfi sem verður að stoppa ekki seinna en strax.

Það átta allir sig á mikilvægi þess að vera með vel menntað og hæft fólk til að sinna rekstri og viðhaldi á atvinnu- og orkufyrirtækjum landsmanna.  Hinsvegar er flóttinn úr þessum starfsgreinumgreinum alger og kominn yfir í vélstjóra og vélfræðinga hjá orku- og sjávarútvegsfyrirtækjum. Það má ekki gleyma því að allar þjóðir í kringum okkur sem eru með bestu efnahagsstöðuna í dag eru meira og minna með vél- og málmtækni sem sinn grunn undir hagsældinni.

Við ætlum að koma ábyrgir að kjarasamningagerðinni,  ábyrgðin felst í því að leysa bráðavanda þessara mikilvægu atvinnugreina fyrir íslenskt samfélag og snúa þeirri ógæfuþróun við sem staðið hefur yfir í áratugi. Efnahagleg velgengni í framtíðinni er að hafa traustan grunn til að reka og viðhalda framleiðslugreinum hagkerfisins. Við Íslendingar eigum óþrjótandi möguleika í vél- og málmtækni sem framleiðslugreinar til gjaldeyrisöflunar og sparnaðar í framtíðinni.

VM er lagt af stað í vegferð til að bæta kjörin í þessum greinum og það verður ekki snúið við.
Við viljum taka umræðu um dagvinnulaun og framlegð, kolvitlaust launakerfi sem byggist á viðveru á vinnustað og sporslum. Við ákváðum að fara af stað með þessa nálgun um vanda atvinnugreinarinnar, vegna þess að við teljum að, prósentur, kjararýrnun, meðaltöl kaupmáttur séu allt skýrar staðreyndir sem eru ljósar,  staðreyndir og verkefni til að vinna úr. Ef við fáum réttu samningsaðilana að kjarasamningaborðinu, sem sjá allar þær staðreyndir sem ég hef talað um hér á undan, þá hef ég ekki áhyggjur af því að við finnum lausnir við endurnýjun kjarasamninga í okkar atvinnugreinum.

Hvernig hlutirnir þróast er líka verkefni sem við vinnum úr. Hvort sem framundan séu stuttir samningar, aðfarasamningur eða annað, þá hefur VM – Landsfélag allra í vél- og málmtækni á Íslandi lagt af stað í vegferð um að kjörin í þessari atvinnugrein verði að laga og við munum ekki stoppa. Við munum hugsanlega vera neydd til þess að fara í aðgerðir og við erum tilbúnir í það. Það er kominn alger uppgjöf í okkar félagsmenn þannig að þeir hafa engu að tapa og því tilbúnir í slaginn.

Aðalmálið er að við erum fullir sjálfstrausts og efumst ekki um að við munum ná markmiðum okkar. Það er mikilvægt að allir átti sig á því strax áður en óþarfa skaði er skeður. Það aldrei mikilvægara en nú að allir sem starfa í vél- og málmtækni standi samann í þessari vegferð okkar, allir sem einn.


Guðmundur Ragnarsson, formaður VM