11.3.2013

Að elta skottið á sér.

Ósjaldan hefur maður séð hund vera að elta skottið á sér, þá hefur komið upp í huga manns hvað greyið sé vitlaust. Þessi samlíking kom upp í huga mér nú þegar við enn og aftur stöndum frammi fyrir því verkefni að ná tökum á víxlverkun kauplags, verðlags og verðbólgu, með handónýtan gjaldmiðil. Umræðan er farin af stað um að allir verði að axla ábyrgð og sameinast um að ná tökum á þeim efnahagsvandamálum sem við stöndum frammi fyrir. Við stöndum einnig frammi fyrir þeirri staðreynd að dagvinnulaun eru ekki að standa undir þeim lífsgæðum sem við teljum að við eigum að geta lifað við. Við höfum í kjölfar kjarasamninga gert nokkra sáttmála áður og rótækasta aðgerðin var Þjóðarsáttin svonefnda árið 1990. Þegar ég tala um hundgreyið í þessu samhengi þá horfi ég til þess að við höfum gert nokkrar þjóðaráttirnar með góðum hug og mismunandi hliðarráðstöfunum af hálfu stjórnvalda síðan. En það hefur ekki gengið eftir að ná einhverjum varanlegum og raunverulegum árangri. Við höfum endað í sömu ógöngunum með verðbólguna og gjaldmiðillinn eftir mislangan tíma, oftast vegna óstjórnar og raunveruleikaflótta í hagstjórninni. Við erum því eins og hundurinn alltaf að elta skottið á okkur. Ætti þá ekki að koma líka upp í huga manns það sama um okkur og hundinn, hvort við séum svona vitlaus?
 Það er lítið vandamál að setja á blað göfug markmið að einum sáttmálanum enn, hverju nafni við viljum nefna hann í þetta skiptið.

Ég get byrjað með setningarnar í sáttmálann:

Stefnt verði að því að koma á stöðuleika í gengi og verðlagi.
Gripið verði til aðgerða til að lækka verðlag með aukinni samkeppni.
Hallalaus rekstur ríkis og sveitarfélaga.
Stefnt verði að öflugri atvinnustefnu með auknum fjárfestingum.
Lækka skatta – Auka kaupmátt – Nýtt húsnæðiskerfi til að tryggja fjölskyldum öruggt húsnæði – Lækka vexti – Samræma menntakerfið að þörfum atvinnulífsins – Jafna réttindi í lífeyriskerfinu.

Þetta eru aldeilis flott markmið, en hvað svo?

Það verður eitthvað að koma aftan við sáttmálann um rótækar breytingar á stjórn efnahagsmála, gjaldmiðlinum eða einhverskonar uppstokkun á því hvernig kökunni er skipt.Svo við lendum ekki í sömu ógöngunum og alltaf, með verðbólgu og gjaldmiðilinn.
Spurning væri hvort ein af fyrstu aðgerðunum væri t.d. að setja alþingismenn í hæfnispróf eins og þeir settu á þá einstaklinga sem eru í stjórnum lífeyrissjóða, sem var eini hluti fjármálakerfisins sem stóð af sér fjármálahrunið.
Væri t.d. ekki full þörf á að setja lög um stjórn banka eins og lög um stjórn fiskveiða? Þar sem fjármálakerfinu væru settar skorður um hvað það má soga til sín úr hagkerfinu. Eins og við höfum um fiskveiðar, svo við ofnýtum ekki fiskistofna og sköðum okkur með óheftum veiðum sem stæðu stutt yfir úr viðkomandi stofni. Er það eðlilegt að á meðan framleiðslufyrirtækin rétt skrimta og geta varla borgað laun, öðruvísi en viðkomandi launþegar þurfi félagslega aðstoð til að komast í eigið húsnæði með sína fjölskyldur, Þá sé fjármálakerfið óheft að soga til sín fjármagn og prentar peninga. Það fljóta peningar út úr öllu gáttum fjármálakerfisins. Hvaðan koma þessir peningar og hvar verða verðmætin til?
Það er mín einlæga trú að ein sáttin enn með fögur fyrirheit muni ekki virk nú frekar en áður, nema komi til rótækar breytingar á stjórn peninga- og efnahagsmála auk ráðstafanna í skiptingu þjóðartekna. Það verði gert samhliða aðgerðunum með breiðri pólitískri sátt um framtíðarsýn sem allir ætli sér að stefna á. Takist það ekki munum við halda áfram að elta skottið. En sennilega vær fyrsta verk í þessu að alþingismenn settu lög um að þeir fari í hæfnispróf eins og þeir settu á stjórnir lífeyrissjóða. Hvað kæmust margir af þeim í gegnum svoleiðis próf, það er spurning dagsins.
Guðmundur Ragnarsson, formaður VM.