18.1.2013

Skynsemin látin ráða.

Sú ákvörðun Fulltrúaráðs VM um að samþykkja framlengingu á gildandi kjarasamningum er mjög skynsamleg. Vissulega hafa forsendur þær sem stemmt var að í verðlags og gengismálum ekki staðist. Að segja upp kjarasamningunum nú og verða af 3,25% launahækkun 1. febrúar n.k. hefði verðið mjög óskynsamlegt. Það er mikill óvissa framundan og engin veit hver niðurstaða komandi þingkosninga verður og hverjir koma til með að mynda ríkistjórn eftir þær. Vonandi mun íslensku þjóðinni bera gæfa til að kjósa sér sterka einstaklinga með raunverulegar lausnir til að mynda næstu ríkisstjórn.
Niðurstaða úr könnun VM um afstöðu félagsmanna til framlengingar á gildandi kjarasamningum þar sem  42,46% vildu segja upp samningnum,  57.54% að honum yrði framlengt, sýnir að félagsmenn VM eru mjög ósáttir með kjör sín.  Þetta eru mjög skýr skilaboð. Í mínum huga mun 2013 verða biðár.
VM hóf sinn undirbúning fyrir næstu endurnýjun kjarasamninga, með kjararáðstefnu síðasta haust. Á kjararáðstefnu okkar í október á þessu ári munum við marka okkar stefnu og aðkomu að þeirri kjarasamningagerð sem framundan er.
Það var slæmt að ekki tækist að koma verðbólguhamlandi mælingum inn í endurskoðun kjarasamninganna. Þess vegna verður það að vera sameiginlegt átak allra að halda aftur af öllum hækkunum á vöru og þjónustu og ekki síst að ríki og sveitarfélög standi á bremsunni. Ríkistjórn og seðlabankinn reyni með öllum ráðum að koma á stöðugleika og styrkja krónuna. Verðbólgan má ekki fara af stað á árinu, henni verðum við að ná niður með öllum tiltækum ráðum. Það verður ekki gert nema með virku verðlagseftirliti sem allir taka þátt í, komi síðan upplýsingum á framfæri um þá sem ætla að vaða fram með hækkanir.
Allar viðræður okkar við LÍÚ vegna kjarasamninga vélstjóra á fiskiskipum liggja niðri og verða væntanlega ekki teknar upp fyrr enn einhver niðurstaða næst varðandi breytingar á lögum um stjórn fiskveiða. Það eru komin tvö ár frá því að þeir kjarasamningar voru lausir.

Kveðja, Guðmundur Ragnarsson, formaður VM