21.12.2012

Í lok árs 2012

Á ný afstöðnum  félagsfundi hjá VM, var farið yfir stöðu mála vegna endurskoðunar kjarasamninga 21.  janúar 2013. Fundarmenn veltu fyrir sér hvað væri framundan og lögðu kalt mat á það hvar mesti ávinningurinn væri í stöðunni. Kallað var eftir því að í komandi viðræðum við SA yrði reynt að rétta af hlut iðnaðarmanna vegna þeirrar litlu kaupmáttaraukningar sem hefur orðið hjá þeim hópi. Það kom sterkt fram að eftirgjöf iðnaðarmanna við að framkalla hækkanir á lægstu kauptöxtum á vinnumarkaði í undanförnum kjarasamningum væri farin að bitna á kaupmætti okkar félagsmanna. Farið var yfir þá vinnu sem VM er lagt af stað með vegna endurnýjunar kjarasamninga 2014. Stór hluti af tímanum á fundinum fór í umræðu um stöðu efnahagsmála almennt, verðlag og hina þungu framfærslu sem orðin er í landinu hjá almenningi. Ef ekki verði komið á traustri framtíðarsýn í peninga, vaxta og gjaldeyrismálum eftir komandi kosningar til alþingis, þá er vandséð hvernig snúa eigi við þeirri neikvæðu þróun sem varð á kaupmætti við efnahagshrunið. Prósentur til eða frá í kjarasamningum eru aukaatriði  verði sama efnahagsóstjórnin sem við höfum þurft að hafa í áratugi áfram. Niðurstaða um hver væri hin rétta leið til að ná tökum á vandamálunum var ekki leyst á fundinum en auðheyrt að allir eru meðvitaðir um það og sammála hvert stærsta verkefnið framundan er hjá aðilum vinnumarkaðarins og stjórnvalda. Það er að finna raunhæfa leið út úr efnahagsvandanum og koma á einverjum stöðuleika. Öðruvísi verður ekki hægt að hefja þá vegferð að auka kaupmátt að nýju í samfélaginu. Ákvörðun um afstöðu VM til endurskoðunar kjarasamninganna verður tekin á fundi Fulltrúaráðs VM í janúar n.k.
Vinna okkar hjá VM vegna undirbúnings endurnýjunar kjarasamninga 2014, óháð því sem gerast mun á vinnumarkaðnum fram að þeim tíma, er komin af stað og ég hef óbilandi trú á verkefninu, um að það muni skila okkur árangri til framtíðar í bættum kjörum okkar félagsmanna.

Stjórn félagsins hefur verið að vinna í endurskipulagningu á fjármálum og rekstri félagsins. Kostnaðarhlutdeild Sjúkrasjóðs verður minnkuð úr 15% í 10% auk þess sem tryggingarfræðileg úttekt á sjóðnum sýndi að verulega má hækka styrki og dagpeninga. Þetta mun vera lægsta kostnaðarhlutdeild sem tekin er úr sjúkrasjóði hjá stéttarfélagi. Með þessu getum við hámarkað útgreiðslur úr sjúkrasjóðnum til þeirra félagsmanna sem á því þurfa að halda. Stjórn sjóðsins hefur hafið vinnu við að endurskoða styrki og dagpeninga og stefnt er að því að kynna breytingarnar á næsta aðalfundi VM. Styrkir úr fræðslusjóði verða endurskoðaðir og vonandi líkur þeirri vinnu sem fyrst. Unnið var áfram á árinu við að bæta orlofsaðstöðuna með því að endurnýja og bæta orlofshúsin og tjaldsvæðið á Laugarvatni. Þessu átaki mun ljúka í byrjun næsta árs og þá munum við fara að huga að frekari uppbyggingu orlofsaðstöðunnar eins og stefnt hefur verið að.
Það er mikið í gangi hjá okkur og við erum stöðugt að koma fram með þá hagræðingu sem sameiningin er að skila okkur. Við megum ekki gleyma okkur þó vel gangi í rekstri félagsins og þurfum að halda því stöðugt á lofti að félagið verður ekki öflugt nema félagsmennirnir leggi sig fram við að hafa áhuga á félaginu og því sem það stendur fyrir.  Félagið er til fyrir félagsmanninn og hann á að hafa áhrif á það sem verið er að gera og hvert við erum að stefna hjá stéttarfélagi eins og VM.

Nú er fjórða árið að renna á enda eftir efnahagshrunið og því miður er það skoðun mín að næsta ár eigi eftir að verða mörgum erfitt ár, trúlega erfiðasta árið frá hruni, því miður.
Við verðum að standa þétt samann og styðja hvort annað þó að á móti blási.

Ég óska félagsmönnum VM og fjölskyldum þeirra gleðilegra jóla, með ósk um að komandi ár verði okkur öllum gott.

Guðmundur Ragnarsson, formaður VM