9.10.2019

100 ára afmæli norræna vélstjórasambandsins

Þann 7. október s.l. var þess minnst að 100 ár eru frá því að norræna vélstjórasambandið (Nordiska Maskinbefälsfederationen –NMF) var stofnað. Tímamótanna var minnst með hátíðarfundi í Kaupmannahöfn.

Í febrúar 1919 stóðu vélstjórafélögin í Noregi, Danmörku og Svíþjóð að stofnun sambandsins, eftir nokkurn aðdraganda. Finnska vélstjórafélagið gekk í sambandið 1920 og árið 1981 gengu svo vélstjórafélögin á Íslandi og í Færeyjum í sambandið.

Helstu verkefni sambandsins hafa einkum varðað kjaramál, menntun, mönnun skipa og aðbúnað áhafna. Undanfarin ár hefur t.d. tækniþróun haft mikil áhrif og á menntun og störf vélstjóra. Auknar kröfur undanfarið á sviði orku- og umhverfismála, upplýsingatækni og stjórnunar munu í nánustu framtíð hafa mikil áhrif á hæfniskröfur sem gerðar verða til vélstjóra. Einnig kom fram á fundinum að vegna krafna um að minnka mengun frá skipum hafi komið ný bætiefni í brennsluolíu sem væri mun hættulegri mönnum en þau sem fyrir eru.

NMF er sameiginlegur vettvangur félaganna á norðurlöndum til að bera saman bækur sínar og hafa sameiginlega áhrif á reglur sem unnið er að á alþjóðavettvangi. Lars Have Hansen, formaður danska vélstjórafélagsins og forseti NMF, sagði í setningarræðu sinni að norrænu vélstjórafélögin standi frammi fyrir sameiginlegum áskorunum og lagði hann áherslu á mikilvægi áframhaldandi norræns samstarfs.