21.6.2019

Afhentu fyrsta leigjandanum íbúð hjá Bjargi íbúðafélagi

Bjarg íbúðafélag fagnaði tímamóAfhentu fyrsta leigjandanum íbúð hjá Bjargi íbúðafélagitum í starfsemi félagsins í dag þegar fyrsti leigjandi félagsins fékk afhenta lyklana að íbúð við Móaveg í Grafarvogi. Alls fá 68 leigjendur afhentar íbúðir í júní og júlí, við Móaveg og í Asparskógum á Akranesi.

Það var Katrín Einarsdóttir, einstæð tveggja barna móðir, sem fékk afhenta lykla að fyrstu íbúðinni sem fer í útleigu. Hún hefur búið um nokkurt skeið í einu herbergi heima hjá foreldrum sínum ásamt börnum sínum, sem eru fjögurra og tíu ára gömul, og því kærkomið að komast í nýja íbúð hjá Bjargi.

Bjarg íbúðafélag var stofnað af Alþýðusambandi Íslands og BSRB árið 2016 með það að markmiði að byggja upp leiguhúsnæði fyrir tekjulægri félagsmenn þessara heildarsamtaka launafólks. Alls eru nú 563 íbúðir í byggingu á vegum félagsins og 490 til viðbótar í hönnunarferli.

Bjarg áformar að halda uppbyggingu húsnæðis áfram í samræmi við þörf og fjármagn. Sveitarfélög útbúa húsnæðisáætlanir til að meta þörfina og leggur Bjarg áherslu á að eiga í góðu samstarfi við þau um frekari uppbyggingu á komandi árum.

Um 1.150 félagsmenn ASÍ og BSRB eru nú á biðlista eftir íbúðum svo ljóst er að þörfin fyrir leiguhúsnæði til langs tíma á hagkvæmu verði er mikil.

„Verkalýðshreyfingin hefur enn og aftur tekið frumkvæði að því að bjóða hagkvæmari íbúðir fyrir vinnandi fólk á Íslandi. Það er afar ánægjulegt að sjá þetta verkefni verða að veruleika og ég veit að Bjarg mun gera fjölda fólks kleift að búa í mannsæmandi húsnæði á viðráðanlegum kjörum. Þetta er gleðidagur og vísir að því sem koma skal,“ sagði Drífa Snædal, forseti ASÍ við athöfnina.

„Það er virkilega ánægjulegt að sjá hér í dag afraksturinn af þeirri miklu vinnu sem unnin hefur verið á þeim þremur árum sem liðin eru frá því Bjarg var stofnað. Uppbygging félagsins sýnir að það er vel hægt að byggja upp leigufélög hér á landi sem ekki eru rekin í hagnaðarskyni. Nú eru fyrstu leigjendurnir að flytja inn og við hlökkum til að bjóða mun fleiri velkomna í hópinn á komandi mánuðum og árum,“ sagði Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB.

Mikil uppbygging framundan

  • Framkvæmdir við 563 íbúðir eru nú í fullum gangi við Móaveg, Urðarbrunn, í Úlfarsárdal við Hallgerðargötu og í Hraunbænum í Reykjavík, sem og á Akranesi og á Akureyri.
  • Áætlað er að afhenda leigjendum 172 íbúðir til viðbótar á árinu eftir því sem húsnæðið verður tilbúið. Þær íbúðir eru við Móaveg, í Asparskógum og í Urðarbrunni.
  • Unnið er að hönnun 490 íbúða til viðbótar í Bryggjuhverfinu, Gelgjutanga, og Skerjafirði í Reykjavík, og í Hafnarfirði, Þorlákshöfn, Sandgerði og á Selfossi.