19.10.2018

Vinnustaðarheimsókn í Alvotech

Í dag föstudaginn 19.10.2018 fóru starfsmenn VM í vinnustaðarheimsókn í Alvotech. Í Alvotech vinna fjórir félagsmenn VM en að sögn starfsmanna gæti þeim fjölgað á næstunni. 
Alvotech er alþjóðlegt lyfjafyrirtæki sem sérhæfir sig í þróun og framleiðslu líftæknilyfja. Fyrirtækið var stofnað árið 2013 og fór af stað með skýra sýn um að verða fremst í flokki líftæknifyrirtækja á heimsvísu. Í dag eru sjö hágæða líftæknilyf í þróun hjá Alvotech sem munu renna af einkaleyfi á næstu árum. Þessi lyf eru mikilvæg til meðhöndlunar á ýmsum algengum og erfiðum sjúkdómum eins og gigt, öðrum sjálfsofnæmissjúkdómum og krabbameini. Alvotech er systurfyrirtæki lyfjafyrirtækisins Alvogen og er starfsemi þess á Íslandi, í Swiss og í Þýskalandi.
 
Nýtt hátæknisetur var opnað í Vatnsmýrinni í júní 2016 innan Vísindagarða Háskóla Íslands. Þar starfa hátt á annað hundruð vísindamenn sem vinna að þróun, framleiðslu og markaðssetningu lyfjanna. Innan Vísindagarðanna starfar Alvotech í náinni samvinnu við fræðasvið og deildir háskólanna. Starfsmenn háskólans og nemendur munu vinna að rannsóknum með Alvotech og starfsmenn fyrirtækisins koma að kennslu og fræðslu nemenda háskólanna. Þannig munu háskólarnir og Alvotech vinna saman til að efla fræðastarf auk þess sem atvinnutækifæri verða til fyrir háskólamenntaða einstaklinga.

Starfsmenn VM ræddu við félagsmenn sína um aðstöðuna og kjaramál, farið var með þá í útsýnistúr um bygginguna og skoðuð helstu tækni og tól. 

Það má með sanni segja að þetta hafi verið góður vinnustaðarfundur. Það er fátt skemmtilegra í okkar vinnu sem störfum á skrifstofu VM að sjá hvað menntun okkar félagsmanna er vel metin og sjá hversu öflug og fjölbreytt störf félagsmenn okkar starfa við. Það er á hreinu að metnaðarfullir félagsmenn VM eiga að kynna sér starfsemi fyrirtækisins. 

Formaður og starfsfólk VM hefur farið víða við í vinnustaðarheimsóknir í haust, það er klárt mál að þessir fundir eru góðir fyrir alla aðila. Starfsfólk VM kemst nær sínum félagsmönnum, kynnist störfum sinna félagsmanna betur og hlustar eftir því sem betur má fara hjá félaginu. Starfsmenn VM fá svo tækifæri til þess að kynna félagið og störf sín fyrir félagsmönnum.