16.10.2018

Vinna stöðvuð á byggingarstað eftir vinnustaðareftirlit stéttarfélaganna

Föstudaginn 12. október fóru fjögur stéttarfélög saman í vinnustaðareftirlit. Fulltrúar frá VM, Eflingu, Rafiðnaðarsambandinu og FIT heimsóttu nokkra vinnustaði til að skoða aðbúnað og kjör launafólks.

Daginn áður hafði VM borist ábending á skrifstofu félagsins um að ekki væri allt með felldu á byggingarstað við Ármúla 5 í Reykjavík. 

Var því ákveðið að byrja þar á vinnustaðareftirliti, þegar þangað var komið var ljóst að aðbúnaður og öryggismál voru í miklum ólestri. Starfsmenn fyrirtækisins sváfu og borðuðu á verkstað og voru aðstæður þeirra vægast sagt lélegar. Vinnueftirlitið var kallað á svæðið og tóku starfsmenn vinnueftirlitsins ákvörðun að banna vinnu á byggingarstað, þar sem veigamikil öryggisatriðið voru í ólagi og öryggisstjórnunarkerfi á verkstað ófullnægjandi. Mat Vinnueftirlitið að veruleg hætta væri fyrir líf og heilbrigði starfsmanna. 

Það var gott að þessi ábending barst félaginu og hægt væri að bregðast við. Þetta mál sýnir okkur að vinnustaðareftirlit félagsmanna er ekki síður mikilvægt en eftirlit stéttarfélaganna sjálfra. 

Ef uppi er grunur um að ekki sé allt með felldu á þínum vinnustað eða í kringum þig, ekki hika við að hafa samband við okkur hjá VM. 

Nánar er hægt að lesa um ákvörðun vinnueftirlitsins hér