17.10.2018

Úrskurðarnefnd fiskverðs úrskurðaði um fiskverð vegna Heimaeyjar VE-1, áhafnar Álseyjar VE-2 og áhafnar Sigurðar VE-15.

Úrskurðarnefnd um fiskverð úrskurðaði ný verð vegna makríls og síldar á skipum Ísfélags Vestmannaeyja. Úrskurðurinn kom í framhaldi að því að VM vísaði til úrskurðarnendar fyrir áhafnir skipanna. Verð hækkuðu nokkuð en ljóst er að við vildum fá meiri hækkun en þau verð sem úrskurðað var um í þessum úrskurði, þar sem frekar var tekið tillit til sjónarmiða SFS en VM. Við fögnum því þó að búið sé að viðurkenna það að VM sem stéttarfélag megi koma sínum félagsmönnum til aðstoðar við þetta ferli. Oddamaður í nefndinni talar um það í úrskurði sínum að VM hafi raskað ferlinu sem hefur verið við lýði.

Í bréfi til úrskurðarnefndar sjómanna og útvegsmanna, dags. 21. september 2018 var ákvörðun um fiskverð vísað til nefndarinnar.  Í því bréfi kemur fram að samningum milli áhafna ofangreindra skipa og útgerðar þeirra, Ísfélags Vestmannaeyja hf., hafi verð sagt upp 21. ágúst 2018.  Í gögnum málsins kemur fram staðfesting á því að leynileg atkvæðagreiðsla hafi farið fram hjá áhöfnum Sigurðar VE-15 og Álseyjar VE-2 og ekki hefur verið dregið í efa að slíkt eigi einnig við um áhöfn Heimaeyjar VE- 1. 

Hinn 13. september sendi VM Félag vélstjóra og málmtæknimanna (hér eftir „VM“) útgerðinni drög að samkomulagi um verð sem ekki var fallist á af hálfu útgerðar.  Hinn 20. september 2018 var síðan haldinn fundur með fulltrúum áhafnar og útgerðar sem leiddi ekki til þess að samningar náðust. 

Formaður nefndarinnar óskaði eftir sjónarmiðum frá báðum hliðum hagsmunaðila í kjölfarið sem og upplýsingum frá Verðlagsstofu skiptaverðs.  Fundur var haldinn í fullskipaðri nefnd miðvikudaginn 10. október 2018.  Vegna fjarveru nokkurs hluta nefndarmanna fóru samskipti nefndarmanna að mestu fram í tölvupósti eftir þann fund.

Sjónarmið hagsmunasamtaka sjómanna í málinu samandregin, lúta að því að úrskurður nefndarinnar eigi að taka mið af samningsdrögum sem send voru til útgerðar 13. september 2018.  Þar kemur fram sú tillaga að samningur áhafna og útgerðar skuli taka mið af tilteknum lágmarkshlutföllum af áætluðu skilaverði afurða hverju sinn, tiltekið hlutfall vegna afurða til bræðslu og annað hlutfall vegna afhurða til frystingar. Þar að auki er lagt til að verð taki mið af verðtöflu sem gefin sé út í upphafi vertíðar og breytingum á slíkri töflu sem birtar séu vikulega í samræmi við breyttar forsendur. Einnig er byggt á því að ef ekki sé fallist á að úrskurður taki mið af tilteknum hlutföllum þá sé farið fram á að verð sé byggt á hæsta verði sem lög leyfa og nefnt sérstaklega að það eigi að taka mið af meðalverði þeirra þriggja útgerða sem greiða hæst verð hverju sinni. Einnig er vísað til þess að ef ekki sé fallist á ofangreindar kröfur þá eigi verð að taka mið af meðalverðum allra útgerða nema þeirrar sem til úrskurðar er.

Sjónarmið hagsmunasamtaka útvegsmanna lúta annars vegar að tveimur formsatriðum, því að afskipti VM af samningaviðræðum milli fulltrúa áhafna og útgerðar hafi verið með þeim hætti að hagsmunasamtökin hafi í raun komið fram f.h. áhafnar og það gangi gegn því fyrirkomulagi sem kjarasamningar og lög nr. 13/1998 byggi á um að fulltrúar áhafna og útgerða skuli reyna að ná samningum og hagsmunasamtök komi að ákvörðunum eingöngu þegar máli er skotið til úrskurðarnefndar.  Vísað er til dómaframkvæmdar Félagsdóms því til stuðnings sem og framkvæmdar nefndarinnar og Verðlagsstofu skiptaverðs. Einnig er því haldir fram að fulltrúi VM sé vanhæfur til að taka þátt í afgreiðslu málsins sem nefndarmaður í úrskurðarnefndinni sökum sömu afskipta. 

Upplýst er í málinu að starfsmaður VM sendi tiltekið skjal með tölvupósti á útgerðarstjóra Ísfélags Vestmannaeyja hf. (hér eftir „Ísfélagið“) hinn 13. september 2018 þar sem kemur fram að VM hafi tekið að sér að senda samningsdrög vegna verðs á síld og makríl til útgerðarinnar.  Einnig kemur þar fram að VM óski ekki eftir svari því það sé ekki aðili að samningnum. Ennfremur kom starfsmaður VM  á framfæri skilaboðum frá trúnaðarmönnum skipanna að þeir væru tilbúnir að skrifa undir það samkomulag sem sé í skjalinu. Nánar tiltekið „þetta samkomulag“ og orðið þetta er undirstrikað Í tölvupósti frá útgerðarstjóra Ísfélagsins kemur fram staðfesting á því að tölvupósturinn var móttekinn og að fundur hafi verið haldinn 20. september 2018 með útgerð og trúnaðarmönnum skipanna þriggja og kemur fram hjá honum að „menn voru sammála um að nauðsynlegt væri að gera samning en að svo stöddu væri það ekki raunhæft.“ Daginn eftir, eða 21. september 2018, var málinu vísað til úrskurðarnefndar. 

Þegar litið er til þess hlutverks sem heildarsamtök sjómanna og útvegsmanna hafa í kjarasamningum og lögum og lýst er hér að ofan verða allir sem koma að máli að virða það heildarfyrirkomulag sem þar er gert ráð fyrir. Með beinum afskiptum VM að samningagerð áhafnar og útgerðar við uppsögn samnings og tölvupóstsendingar 13. september 2018 var því fyrirkomulagi raskað. 

Það verður hins vegar einnig að líta til þess að það var haldinn fundur 20. september 2018 með trúnaðarmönnum áhafna og útgerð og þar fóru fram viðræður um mögulega samninga. Þær viðræður héldu ekki áfram og verður að ætla af gögnum málsins að það að hafi verið sameiginleg ákvörðun trúnaðarmanna áhafnar og útgerðar. Ekki liggur fyrir að fulltrúar VM hafi þar komið fram fyrir hönd áhafna. Að því sögðu eru aðstæður ekki að öllu leyti sambærilegar því máli sem fjallað var um í dómi Félagsdóms og sem vísað er til hér að ofan.  Þar var byggt var á því að áhafnir gætu á grundvelli almennra reglna samningaréttarins falið heildarsamtökum sjómanna umboð til samningsgerðar.  Ekki er byggt á því í þessu máli að VM hafi átt að hafa slíkt umboð og ekki er hægt að lesa slíkan vilja áhafna út úr þeim gögnum sem fyrir liggja. 

Með hliðsjón af kröfum þeirra verður fyrst að taka afstöðu til þess hvort úrskurður nefndarinnar geti tekið mið af því að verð sé ákveðið með tilteknum lágmarks hlutfallstölum.  Þegar litið er til orðalags fyrrnefndrar 2. mgr. 11. gr. um það „verð sem algengast er“ þá verður að líta til þess hvernig samningar allra útgerða eru við sínar áhafnir. Ekki er hægt að fallast á að samningar um föst lágmarkshlutföll feli í sér það sem algengast er í skilningi ákvæðisins þar sem slík ákvæði eru einungis að finna, fyrirvaralaus, í samningum tveggja útgerða af sjö. Þegar af þeirri ástæðu verður ákvörðun nefndarinnar ekki byggð á föstum lágmarkshlutföllum heldur við verð á kg upp úr sjó, eins og vant er í úrskurðum nefndarinnar. Með þessari túlkun nefndarinnar er hins vegar ekki verið að takmarka með nokkrum hætti hvernig áhafnir og útgerðir semja sín á milli ,skv. gr. 1.28.1 í kjarasamningum.

Þá stendur eftir að taka afstöðu til þess hvert fiskverð eigi að vera, en samkomulag er um að úrskurður nefndarinnar taki mið af verðum á afla sem landað er frá 21. september 2018.

Ekki verður fallist á að hæsta krónutala sem lög leyfi eða meðalverð þegar tekið er mið af þremur hæstu verðum útgerða hverju sinni, eins og aðalkrafa heildarsamtaka sjómanna byggja aðallega á, eða meðalverð tiltekinna tveggja útgerða, eins og heildarsamtök útvegsmanna byggja aðallega á, séu tæk sem fiskverð sem „..algengast er við sambærilega ráðstöfun afla.“, sbr. fyrirmæli 2. mgr. 11. gr. laga nr. 13/1998.

Ljóst er af fyrri framkvæmd úrskurðarnefndar að „verð sem algengast er“ í skilningi 2. mgr. 11. gr. laga nr. 13/1998 er ekki sjálfkrafa meðalverð allra útgerða sem eru á sömu veiðum hverju sinni.  Þegar litið er til gagna um verð einstakra útgerða á tímabilinu 17. september – 7. október 2018 má sjá að verð eru mismunandi og bæði má sjá verð hjá einstaka útgerð sem eru nokkuð yfir meðalverði og að sama skapi má sjá verð hjá öðrum útgerðum sem eru nokkuð undir meðalverði.  Í fyrri framkvæmd úrskurðar­nefndar hefur heldur ekki verið fallist að það að það verð sem algengast er í skilningi 2. mgr. 11. gr. laga nr. 13/1998 eigi að vera meðalverð allra annarra útgerða en þeirrar eða þeirra sem greiðir hæst verð hverju sinni, þó það verð sé nokkuð hærra en það sem aðrar útgerðir greiða á sama tímabili.

Ákvörðun nefndarinnar er tekin á grundvelli heildarmats hverju sinni sem felur í sér að vega saman öll sjónarmið og þær upplýsingar sem liggja fyrir í einstaka máli.  Í gögnum frá Verðlagsstofu skiptaverðs um verð einstakra útgerða til áhafna á tímabilinu 17. september – 7. október 2018 kemur fram að viss útgerð eru oftar með nokkuð hærri verð en aðrar og aðrar tvær útgerðir greiða oftar lægra verð en aðrar. 

Þegar áhrif þessa eru metin saman og tekið er mið af öllum gögnum og sjónarmiðum aðila verður að líta svo á að það verð sem algengast er í skilningi 2. mgr. 11. gr. laga nr. 13/1998 í þessu tiltekna máli sé sambærilegt við meðalverð útgerða sem gefið hafa Verðlagsstofu skiptaverðs upplýsingar um verð á tímabilinu 17. september til 7. október 2018, þó að frátöldum verðupplýsingum frá þeirri útgerð sem greiðir verð sem er nokkuð mikið hærra en aðrar á umræddu tímabili og annarrar þeirrar útgerðar sem greiðir almennt nokkuð lægra verð á sama tímabili. Verð eru ákveðin í einu lagi fyrir tímabilið 21. september til 12. október 2018.  Í ljósi þeirrar óvissu sem er um þróun verðs m.a. vegna stöðu á mörkuðum og gengi gjaldmiðla eru ekki forsendur til að binda verð í úrskurðinum til lengri tíma en 12. október 2018.

Úrskurðarorð

Verð útgerðarinnar Ísfélags Vestmannaeyja hf. til áhafnar Heimaeyjar VE-1, áhafnar Álseyjar VE-2 og áhafnar Sigurðar VE-15 skulu vera eftirfarandi frá 21. september 2018 til 12. október 2018.

Makríll til vinnslu: 49,9 kr/kg                         Makríll í bræðslu: 29,9 kr/kg

Síld til vinnslu:    30,6 kr/kg                          Síld í bræðslu:     29,3 kr/kg

Hægt er að lesa úrskurðinn í heild sinni hér.