14.8.2018

Tímabundnir ráðningarsamningar á sjó

Í laugardagsblaði Fréttablaðsins var frétt um um skammtímaráðningar sjómanna. Það er ljóst að endurteknar skammtímaráðningar sjómanna rýra réttindi þeirra til dæmis til veikindalauna og uppsagnarfrests. VM tekur undir áhyggjur forsvarsmanna annarra stéttarfélaga og telur það ótækt að ef sjómaður veikist en hefur ekkert í höndunum sem sannar það að hann hafi átt að vera á sjó í næsta túr eða síðar þá eigi hann ekki rétt á veikindakaupi eins og lög gera ráð um. Með því að smella hér er hægt að lesa fréttina í heild sinni.

Samkvæmt 5. gr laga nr. 139/2003 um tímabundnar ráðningar starfsmanna er óheimilt að framlengja eða endurnýja tímabundinn ráðningarsamning, þannig að tímabundin ráðning vari samfellt lengur en í tvö ár, nema annað sé tekið fram í lögum.

Í dómi Hæstaréttar frá desember 2014, í máli skipverja á frystitogara, með ítrekaða tímabundna ráðningarsamninga til 22ja mánaða, kom fram að „samkvæmt 1. mgr. 5 gr. er óheimilt að framlengja eða endurnýja tímabundinn ráðningarsamning þannig að hann vari samfellt lengur en í tvö ár.“ Var útgerðin sem stefnt var í þessu máli því sýknuð þar sem sjómaður hafði ekki verið skammtímaráðin til lengri tíma en tveggja ára. Nánar er hægt að lesa um dóminn hér. Af framangreindu leiðir að heimilt er að gera ítrekaða tímabundna ráðningarsamninga til allt að 2ja ára, jafnvel þó svo að baki slíkum samningum búi engin málefnaleg sjónarmið, en eftir þann tíma teljast starfsmenn vera ráðnir ótímabundið, jafnvel þó svo að gerðir séu við þá áframhaldandi tímabundnir ráðningarsamningar.

VM hvetur félagsmenn sína til þess að standa klárir á þessum rétti sínum en hvetur jafnframt stéttarfélög sjómanna til þess að snúa bökum saman til að fá þessum lögum breytt með hagsmuni sjómanna að leiðarljósi. VM trúir því ekki að stjórnvöld vilji hafa lög þannig að þau gagnist atvinnurekendum til þess að skerða eðlileg réttindi launafólks.