24.1.2017

Ályktun samninganefndar vélstjóra á fiskiskipum

Þar sem slitnað hefur upp úr viðræðum VM - Félags vélstjóra og málmtæknimanna, og félaga sjómanna við Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, er staðan í kjaradeilunni mjög alvarleg.

Fullyrðing SFS um að VM og félög sjómanna hafi slitið viðræðunum er röng.

Samninganefnd VM lítur svo á að á fundinum, hjá ríkissáttasemjara, varð niðurstaðan sú að ekki væri flötur til áframhaldandi viðræðna. Því var fundi slitið. Ábyrgðin á því liggur hjá báðum aðilum.

Í samningsferlinu hefur ýmislegt náðst fram af kröfum VM.  Full ástæða er að halda því til haga. Hins vegar var undirliggjandi mikil óánægja meðal vélstjóra á fiskiskipum sem varð til þess að að kjarasamningurinn, sem gerður var, var felldur. Ástæða þess er að stórum hluta á ábyrgð útgerðanna.

Það er verkefni samninganefndar VM að leita allra leiða til að koma á kjarasamningi við SFS og undan þeirri ábyrgð verður ekki vikist. Þrátt fyrir þann tíma sem er liðinn, frá því að verkfallið hófst og marga fundi, hefur samninganefnd VM ekki fengið sjálfstæðan fund með SFS um sérkröfur VM. Vilji samninganefndarinnar er  að fá áframhaldandi viðræður um sérkröfur vélstjóra á fiskiskipum.

Hafni SFS því er augljóst hver samningaviljinn er af þeirra hálfu.  

f.h. samninganefndar VM
Guðmundur Ragnarsson, formaður VM