2.12.2015

Verkfalli Rio Tinto (ÍSAL) aflýst en kjaradeilan enn óleyst

Starfsfólk leiksoppar í hagsmunatafli Rio Tinto

Samninganefnd starfsmanna í álverinu í Straumsvík hefur tekið ákvörðun um að aflýsa áður boðuðu verkfalli sem hefjast átti á miðnætti í gær. Kjaradeilan er áfram óleyst en ákvörðunin um að aflýsa verkfallinu er tekin þar sem sýnt þykir að raunverulegur samningsvilji sé ekki fyrir hendi hjá eiganda álversins, Rio Tinto.
 
Að mati samninganefndarinnar er  gagnslaust að halda verkfallinu til streitu, enda hafi ítrekað komið fram hótanir þess efnis að álverinu verði lokað og sökinni þá skellt á starfsfólkið fyrir að sækja lögbundinn rétt sinn og kjarabætur.
 
Krafa starfsfólksins er og hefur alltaf verið skýr. Sambærilegar launahækkanir og samið hefur verið um á almennum vinnumarkaði  og áréttað er að í engum kjarasamningum hafa starfsmenn þurft að semja frá sér störf yfir í annað og lakara launa- og réttindakerfi.

Kjarasamningur verkalýðsfélaganna við ISAL hefur tryggt fyrirtækinu meiri vinnufrið og stöðugt og gott aðgengi að starfsfólki. Það er því starfsfólkinu þungbært að upplifa sig sem leiksoppa í hagsmunatafli Rio Tinto gegn launafólki víðsvegar um heiminn.
 

Sérstök staða í deilunni við forsvarsmenn álversins


Með verkföllum er ætlað að knýja gagnaðila til að fallast á kjarakröfur. Meginforsenda þess að verkföll skili árangri er að báðir aðilar vilji ná samningi. Báðir aðilar hyggist halda starfsemi áfram. Þessa forsendu skortir að því er virðist af hálfu Rio Tinto. Við þessar aðstæður eru verkfallsaðgerðir tilgangslausar.
 
Ýmislegt er á huldu um raunverulega tilætlan Rio Tinto. Flest virðist þó að mati verkalýðsfélaganna benda til þess að tilgangur þeirra sé að ná einhvers konar samningsstöðu gagnvart íslenskum stjórnvöldum eða að komast hjá því að bera sjálfir ábyrgð á ákvörðunum sínum um framtíð álversins í Straumsvík.
 
Framganga Rio Tinto í kjaradeilu þeirra við stéttarfélög starfsmanna hefur miðað að því að brjóta niður starfsemi stéttarfélaganna og spilla þeim starfsfriði sem í hálfa öld hefur staðið um starfsemi álversins í Straumsvík. Sé tilgangur þeirra sá að skapa forsendur fyrir því að þeir geti stundað starfsemi sína á þann hátt sem þeim hefur liðist á öðrum stöðum í heiminum með félagslegum undirboðum og undirokun starfsfólks er að mati verkalýðsfélaganna ljóst að þeir hafa ekki valið starfsemi sinni réttan stað. Sé þetta tilgangur Rio Tinto er kjaradeilan í álverinu miklu stærra mál en svo að það fjalli um kjör starfsfólks álversins í Straumsvík. Hér er þá um að ræða aðför að verkalýðshreyfingunni allri og því fyrirkomulagi sem sátt hefur verið um að skuli ríkja á íslenskum vinnumarkaði.
 
Fundir með starfsmönnum verða boðaðir í dag.