16.12.2015

Snúin staða í ÍSAL

Fátt hefur komið fram á samningafundum með ÍSAL hjá ríkissáttasemjara, sem skýrir á hvaða vegferð fyrirtækið er. Ef eitthvað er þá fjölgar þeim spurningum frekar en að vilji þeirra skýrist.
Átökin um verktökuna skýra alls ekki afstöðu ÍSAL. Guðmundur Þ. Ragnarsson, formaður VM, segir fullyrðingar um óréttláta stöðu ÍSAL hvað varðar verktöku vera þreytandi.
„ÍSAL hefur ekki verið tilbúið að ræða einhverskonar samning sem tryggir lágmarkslaun fyrir þau störf sem færu í verktöku líkt og samningurinn sem gerður var við Fjarðarál í sumar,“ segir Guðmundur.
Hann segir að eitthvað hljóti að búa að baki þvermóðsku hinna erlendu eigenda fyrirtækisins og enn sé óljóst til hvers þeir ætlast í þeirri vegferð sem þeir eru á.
„Vandamál okkar er að við höfum ekki áður verið í kjaradeilu við alþjóðlegan auðhring sem er tilbúinn að fórna ýmsu til að ná sínu fram. Því verðum við að vanda okkur í öllum okkar aðgerðum og hafa sem mesta og besta stjórn á atburðarásinni,“ segir Guðmundur Þ. Ragnarsson.