30.12.2015

Skattabreytingar um áramót

Á liðnu haustþingi voru að venju ýmsar tillögur að breytingum í skattamálum í þeim frumvörpum sem urðu að lögum fyrir jól. Um áramótin taka því gildi nokkrar breytingar sem snerta skatta á heimili og fyrirtæki með almennum hætti, en sumar þeirra voru lögfestar á fyrri þingum. Hér verður farið yfir hinar helstu þeirra.

Nánari upplýsingar um þær breytingar sem hér er fjallað um og aðrar breytingar í skattamálum er að finna í greinargerðum með viðkomandi lagafrumvörpum og öðrum skjölum á vef Alþingis, og einnig á vefsíðu RSK.

Tekjuskattur einstaklinga

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar kemur fram markmið um að einfalda skattkerfið og gera það skilvirkara. Á árinu 2014 var fyrsta skrefið tekið en þá var létt skattbyrði af tekjulægri heimilum með hækkun neðri  þrepamarka tekjuskattsins og lækkun miðþrepsins. Á vormánuðum 2015 samþykkti ríkisstjórnin að beita sér fyrir breytingum á tekjuskatti einstaklinga sem myndi leiða til hækkunar á ráðstöfunartekjum allra launþega, sérstaklega millitekjuhópa. Þessi samþykkt var hluti af yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar til að greiða fyrir gerð kjarasamninga á almennum vinnumarkaði og fellur vel að markmiðinu um einföldun skattkerfisins. Breytingarnar fela í sér fækkun skattþrepa úr þremur í tvö í tveimur áföngum. Fyrri áfangi kemur til framkvæmda á árinu 2016. Skatthlutfall samtals í fyrsta þrepi lækkar um 0,17 prósentustig, úr 37,30% í 37,13%, skatthlutfallið í öðru þrepi lækkar um 1,39 prósentustig, úr 39,74% í 38,35% og þriðja þrepið hækkar í 46,25%. Hækkunin um 0,01 prósentustig stafar af hækkun meðalútsvars úr 14,44% í 14,45%. Á árinu 2017 þegar seinni áfanginn kemur til framkvæmda lækkar skatthlutfallið í þrepi 1 í 36,95%, skattþrep 2 fellur út og þrepamörk verða lækkuð.

Nánar hér