18.12.2015

Ályktun stjórnar VM vegna deilunnar í ÍSAL

Stjórn VM – Félags vélstjóra og málmtæknimanna fordæmir vinnubrögð Rio Tinto, eigenda álversins í Straumsvík fyrir framkomu þess í garð starfsmanna fyrirtækisins.
Að fyrirtækið sé tilbúið að valda sér ómældu fjárhagslegu tjóni til að ná lægst launuðu störfunum í verktöku, vekur upp þá spurningu að eitthvað annað búi að baki.

Fyrirtæki eins og Rio Tinto verður að átta sig á því að með því að standa í vegi fyrir eðlilegum launahækkunum til starfsmanna sinna þá er það ekki aðeins að valda sér fjárhagslegum skaða, heldur um leið er fyrirtækið að byggja upp almenna andúð á alþjóðlegum auðhringjum. Það hlýtur að kalla á að við höfum skoðun á því hverskonar fyrirtæki við viljum að starfi hér á landi.

Stjórn VM skorar á almenning og alla þá sem skoðun hafa á deilunni að lýsa yfir fullum stuðningi við starfsmenn og stéttarfélög sem standa í átökum við Rio Tinto auðhringinn.
Sýnum eigendunum að við látum ekki beygja okkur né þvinga líkt og þeir hafa náð fram víðsvegar um heiminn þar sem fyrirtækið starfar. Við viljum ekki þeirra hugmyndafræði inn á íslenskan vinnumarkað.