17.8.2015

Úrskurður gerðardóms hefur áhrif á kröfur VM

„Það er ansi ströng samningalota framundan, við höfum með formlegum hætti farið fram á áætlun 
um viðræður vegna sérkjarasamninga, sú áætlun lítur vonandi dagsins ljós á allra næstu dögum.
Ákveðin þáttaskil urðu fyrir helgi í viðræðum um launakjör starfsmanna ÍSAL og alvöru viðræður
hefjast líklega í þessari viku. Viðræður við Samtök atvinnulífsins vegna almenna kjarasamningsins
eru sömuleiðis hafnar hjá sáttasemjara, þannig að það er nóg að gera og framundan hjá
samninganefndum á vegum félagsins,“
segir Guðmundur Ragnarsson formaður VM um stöðuna í kjaramalum.

Greinileg óánægja með launin
„Það er greinilegt að félagar í VM eru óánægðir með launakjörin, gleymum því ekki að almennur
kjarasamningur var felldur í atkvæðagreiðslu í janúar í fyrra og svo aftur í síðasta mánuði.
Atvinnurekendur verða að taka tillit til þess að samningar hafa ítrekað verið felldir og nú síðast með
mjög afgerandi hætti. Það hefur verið viðvarandi skortur á fólki í vél og málmtæknigreinum og unga
fólkið fer ekki í þessar greinar. Helsta ástæðan er að mínu viti kjörin sem bjóðast. Vegna þessa hafa
verið fluttir inn erlendir málm og véltæknimenn sem eru jafnvel á lægi launum en lágmarkslaun
kveða á um og það mun bara aukast ef þensla fer af stað, sem allt bendir til að verði.“

Mörgum spurningum ósvarað
Guðmundur segir að úrskurður gerðardóms í síðustu viku feli í sér meiri launahækkanir til
félagsmanna Bandalags háskólamanna og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga en sambærilegir
hópar aðildarfélaga ASÍ sömdu um fyrr í sumar.
„Auðvitað munum við horfa til úrskurðar gerðardóms í viðræðum okkar við vinnuveitendur.
Í mínum huga er mörgum stórum spurningum ósvarað, það er að segja hvaða hópum á að skammta
hækkanir og hverjum ekki. Samkvæmt úrskurði gerðardóms eru samningarnir afturvirkir, ekki var
samið um slíkt á almennum vinnumarkaði. Þessi úrskurður hefur klárlega áhrif á komandi
kjaraviðræður, en ég býst líka við að atvinnurekendur verji sína láglaunastefnu af fullri hörku.
Þess vegna er nauðsynlegt að hafa traust bakland,“ segir Guðmundur Ragnarsson formaður VM.