27.8.2015

Prinsipp vinnuveitenda skaða kjaraviðræður

Fjórði samningafundur VM og Samtaka atvinnulífsins vegna almenns kjarasamnings var haldinn i Karphúsinu í gær, miðvikudag. Guðmundur Ragnarsson formaður VM segir jákvætt að atvinnurekendur úr greininni hafi setið fundinn í gær, sem liðki vonandi fyrir gerð nýs samnings.

„Það varð engin niðurstaða á fundinum í gær. Krafa okkar er skýr, við viljum fá fasta upphafsprósentu á öll laun. Vinnuveitendur verða að átta sig á því að félagsmenn í VM höfnuðu launaþróunartryggingunni í atkvæðagreiðslu, auk þess sem mikil óánægja er með kjörin í vél- og málmtæknigreinum. Og svo má ekki gleyma því að vopnahléssamningurinn með 2,8% launahækkun til eins árs var felldur fyrir einu og hálfu ári síðan.“

Næsti fundur hefur verið boðaður mánudaginn 31. ágúst og segist Guðmundur binda vonir við að á þeim fundi verði reynt til þrautar að ganga frá nýjum kjarasamningi.

„Það styttist í boðaða vinnustöðvun 1.800 félagsmanna VM, sem að óbreyttu hefst á sunnudaginn 6. september, hafi samningar ekki tekist. Ég trúi ekki öðru en að vinnuveitendum sé þetta ljóst, þannig að það er eins gott að hreyfing komist á viðræðurnar.“

Alvarleg staða í Straumsvík

Guðmundur segir að staðan í viðræðum við Rio Tinto Alcan í Straumsvík sé alvarleg, fyrirtækið virðist ekkert vilja gera til að höggva á þann hnút sem upp er kominn.

„Já, því miður, það er alvarlegt ástand að skapast í fyrirtækinu vegna ýmissa vandamála innandyra. Áltaka úr kerum er orðin langt á eftir, miðað við venjulegt ástand. Það virðist hreinlega ekki vera hægt að reka fyrirtækið án mikillar yfirvinnu, en yfirvinnubann hefur verið í gildi frá síðustu mánaðamótum. Allar tilraunir stéttarfélaganna til að leysa deiluna hafa því miður engan árangur borið. Harðlínustefna Samtaka atvinnulífsins er keyrð eftir bókstafnum. Það er hægt að leysa deiluna ef Rio Tinto Alcan ákveður að koma með beinum hætti að viðræðunum, Samtök atvinnulífsins eru einfaldlega Þrándur í Götu í þessari deilu, það hefur berlega komið í ljós á undanförnum vikum. Skynsemin ræður ekki ríkjum í þessari deilu, svo mikið er víst. Það er engu líkara en að vinnuveitendur séu tilbúnir til að skaða fyrirtækið vegna einhverra prinsippa í staðinn fyrir að láta skynsemina ráða ferðinni og finna ásættanlegar lausnir.“

Orkufyrirtækin

Samninganefnd VM hefur rætt við fulltrúa HS-Orku, Landsvirkjunar og Orkuveitu Reykjavíkur til að fara yfir kjarasamninga hjá þessum fyrirtækjum. Guðmundur segir að fundirnir hafi verið málefnalegir.

„Fyrirtækin koma væntanlega með skriflegar hugmyndir um launahækkanir, svo hægt verði að taka afstöðu til þeirra. Sömuleiðis þeirra krafna sem VM lagði fram um almennar kröfur. Ég bind vonir við að málin skýrist fljótlega í þessum viðræðum.“

Vélstjórar

Guðmundur segir að viðræður VM fyrir vélstjóra á farskipum gangi erfiðlega og óvíst hvernig þeim viðærðum verður háttað á næstunni.

Ríki og sveitarfélög

Ekki hefur verið boðað til funa með samninganefnd ríkisins eða sveitarfélaganna. Guðmundur bindur þó vonir við að skriður komist á þær viðræður áður en langt um líður.