16.6.2015

Vinnuveitendur slíta viðræðum

Samtök atvinnulífsins slitu viðræðum við VM síðdegis í dag, en á fundum í gær og í dag hefur verið farið sérstaklega yfir ýmis sérkjaramál.

Guðmundur Ragnarsson formaður VM segir að lítið hafi þokast í átt að samkomulagi á fundi í gær,  vinnuveitendur hafi hafnað öllum sérkröfum sem kalli á aukinn kostnað.

„ Á fundi í dag ákvaðu svo vinnuveitendur að slíta viðræðum, eftir að VM lýsti því yfir að ekkert væri að koma út úr sérkröfuviðræðum, annað en hugsanlegar bókanir um breytingar á veikinda- og slysarétti.“

Boðað verkfall

„Boðað verkfall iðnaðarmanna hefst á miðnætti á mánudaginn, verði ekki búið að semja, þannig að það er enn tími til stefnu. Ég trúi ekki öðru en að vinnuveitendur sjái ljósið, enda teljum við okkar kröfur sanngjarnar og eðlilegar,“ segir Guðmundur Ragnarsson.