9.6.2015

Verkfalli frestað

Verkföllum VM, RSÍ og Matvís hefur verið frestað til 22. júní, þetta var ákveðið á sáttafundi iðnaðarmannafélaganna með Samtökum atvinnulífsins  í gærkvöldi. Guðmundur Ragnarsson formaður VM segir að á sáttafundinum í gær hafi verið lögð drög að kjarasamningi við félögin og verkfallsaðgerðum því frestað.  Næstu dagar verði notaðir til að fara yfir ýmis sérkjaramál félaganna.

„Við höfum velt á undan okkur ýmsum sérkjaramálum í mörg ár og yfir þær kröfur verður væntanlega farið á næstu dögum, en segja má að útlínurnar séu klárar og það er auðvitað ánægjulegt ef næst að semja um sérkröfurnar. Því er hins vegar ekki að leyna að það er búið að leiða okkur inn í ákveðið módel og þá er bara að vinna út frá þeirri staðreynd. Verkfall vorir enn yfir, þrátt fyrir að ákveðið hafi verið að fresta aðgerðum í gær.“

Guðmundur hvetur félagsmenn til að fylgjast vel með gangi mála.

„Vonandi tekst okkur að nýta tímann vel næstu dagana, þannig að allir geti staðið upp frá samningaborðinu sæmilega sáttir. Sérkjaramálin verða sem sagt í brennidepli, þannig að þetta er ekki búið,“ segir Guðmundur Ragnarsson.