20.6.2015

Staðan í samningamálum

Samninganefnd VM hefur verið boðuð til fundar á sunnudagskvöld, þar sem farið verður yfir stöðuna í kjaraviðræðum. Í gær, föstudag, hófust á nýjan leik viðræður við Samtök atvinnulífsins eftir að upp úr vðræðum slitnaði fyrr í vikunni.

„Iðnaðarmannafélögin funduðu öll um sameiginlegar sérkröfur sínar í gær, áður en VM og RSÍ tóku upp viðræður um sínar sérkröfur.  Við munum hitta fulltrúa vinnuveitenda hjá ríkissáttasemjara á sunnudaginn  og um kvöldið mun samninganefnd VM fara yfir stöðuna, enda styttist óðum í boðaðar verkfallsaðgerðir,“ segir Guðmundur Ragnarsson formaður VM.

Fundur samninganefndar hefst klukkan 20:00 á sunnudaginn. Boðað verkfall hefst á miðnætti á mánudaginn, hafi ekki samist fyrir þann tíma.

„Auðvitað vona ég að hægt verði að afstýra verkföllum og við munum nýta tímann um helgina vel.  Það jákvætt að viðræður eru hafnar á nýjan leik og markmiðið er auðvitað að semja. Enn á eftir að leysa nokkra hnúta, boltinn er er að mestu hjá vinnuveitendum í þeim efnum,“ segir Guðmundur.