28.5.2015

Mikilvægt að forystan fái skýr skilaboð

„Það er ekkert annað í stöðunni en að halda áfram baráttunni, en staðan er vissulega erfið. Kjaraviðræðurnar eru a mínu viti lokatækifæri okkar til að byggja upp þjóðfélag með ákveðinni kynslóð í þessu landi. Ef ekki verður brugðist við núna, missum við út heila kynslóð af iðnaðarmönnum sem leita á önnur mið. Allir eiga sitt eigið líf utan vinnunnar og það gengur ekki að almennt launafólk þurfi að stóla á mikla yfirvinnu til þess eins að láta heimilisbókhaldið ganga upp. Allir sem sitja við samningaborðið hafa ríkum skyldum að gegna og ég vona svo sannarlega að fyrr en varir komist skriður á viðræðurnar,“ segir Páll Heiðar Magnússon Aadnegard, starfsmaður vélsmiðju Eimskips. Hann er jafnframt trúnaðarmaður á sínum vinnustað.

Kosningar hártogaðar

„Ég kýs, já já,  og hvet alla til að gera slíkt hið sama. Það er mjög mikilvægt að forystan fái skýr skilaboð frá félagsmönnum og sömuleiðis skiptir höfuðmáli að þátttakan verði góð. Við vitum að allar slíkar kosningar eru hártogaðar eins og hægt er af viðsemjendum og þeirra klappstýrukór. Því fleiri sem kjósa, því betra fyrir okkar sameiginlega málstað,“ segir Páll Heiðar Magnússon Aadnegard.