23.3.2015

Það verður að vera til líf utan vinnunnar

„Já, ég hef kynnt mér launakröfur VM og spennandi verður að fylgjast með komandi kjaraviðræðum. Það er nauðsynlegt að bæta kjörin og stóra málið er að hækka dagvinnulaunin, þannig að það er mikilvægt að sýna samstöðu í komandi kjaraviðræðum. Það verður að vera til líf utan vinnunnar og krafan er því að fólk geti lifað sómasamlegu lífi af dagvinnulaununum,“ segir Guðmundur Ragnar Lárusson vélvirki hjá Héðni í Hafnarfirði.

Héðinn er eitt stærsta fyrirtæki landsins í málmiðnaði og véltækni.

„ Eðli starfsemi Héðins er þannig að erfitt getur verið að vinna einingus dagvinnu og það er sjálfsagt að taka yfirvinnu þegar starfsemin krefst þess. Það er ekki málið. Mér líst hins vegar vel á að fram fari alvöru viðræður um að auka framleiðnina í atvinnulífinu, VM hefur á margan hátt verið í fararbroddi í þeirri umræðu.“

Guðmundur Ragnar sótti félagsfund VM, þar sem kastljósinu var beint að kröfugerðinni og komandi kjaviðræðum.

„Ég hef ekki mætt á marga félagsfundi til þessa, en kjaramálin skipta alla  miklu máli. Ég ákvað þess vegna að mæta á fundinn og kynna mér sjónarmið félagamanna. Ég heyri ekki annað en að allir séu sammála um að hækka þurfi launin verulega og ég hvet þess vegna alla til að fylgjast vel með gangi mála. Samstaða er gríðarlega mikilvæg og er líklega lykillinn að því að samninganefndinni takist að landa ásættanlegum samningi. Ef koma á í veg fyrir enn frekari landflótta, verða launin að hækka. Það er bara svo einfalt,“ segir Guðmundur Ragnar Lárusson vélvirki hjá Héðni.“

Viðtal: Karl Eskil Pálsson fjölmiðlamaður