10.3.2015

Samstaða er okkar beittasta vopn

„ Á einhverjum tímapunkti verða kjaraviðræður að hefjast og við erum tilbúin í þær viðræður,“ segir Guðmundur Ragnarsson formaður VM. „ Á föstudaginn mun iðnaðarmannasamfélagið innan ASÍ leggja fram sínar kröfur, þannig að línurnar eru að skýrast. Samtök atvinnulífsins virðast ætla sér að keyra á þeirri stefnu sinni að allar hækkanir umfram þrjú prósent setji landið á hliðina með tilheyrandi afleiðingum. Það er deginum ljósara að félagsmenn sætta sig engan veginn við þriggja prósenta hækkun, talan verður að vera tveggja stafa. Það er morgunljóst og það vita atvinnurekendur mæta vel.“

Heilarlaunin duga ekki fyrir framfærslu

Krafa iðnaðarmanna í komandi kjaraviðræðum er endurskoðun á launakerfum iðnaðarmanna með það að markmiði að dagvinnulaun dugi til framfærslu. Hún náist meðal annars með því að auka framleiðni og styttri vinnutíma. Núverandi launakerfi byggi á lágum grunnlaunum sem neyði launamenn til að halda uppi afkomu sinni með mikilli yfirvinnu. Guðmundur segir að kröfugerðin hafi hlotið góðar viðtökur hjá félagsmönnum.

 „Já, ég verð ekki var við annað. Ég tel mig vera í nokkuð góðu sambandi við félagsmenn og samstaðan virðist vera mikil. Það vita allir að dagvinnulaunin eru allt of lág og þess vegna þarf fólk að treysta á mikla yfirvinnu til að ná endum saman í heimilisbókhaldinu. Menn eru hreinlega að gefast upp á löngum vinnudegi. Það alvarlegasta í stöðunni í dag er að heildarlaunin duga ekki lengur fyrir eðlilegri framfærslu. Allar opinberar og viðurkenndar mælingar sýna þessa döpurlegu staðreynd. Á þetta verður auðvitað bent í komandi kjaraviðræðum.“

Samstaða skilar árangri

 „ Á undanförnum misserum hafa verið gerðir kjarasamningar við aðrar starfsstéttir um verulegar hækkanir og auðvitað munum við horfa til þessara samninga. Innviðir samfélagsins eru að hrynja og við höfum í langan tíma bent á mikilvægi þess að auka framleiðni. Ef Íslendingar ætla sér að ná árangri í þeim efnum, verða dagvinnulaunin að duga fyrir framfærslukostnaði. Það er svo einfalt. Ég fagna því sérstaklega að iðnaðarmannasamfélagið fer saman í kjaraviðræðurnar, þannig verðum við sterkari. Við mætum því öflug til viðræðna og munum standa föst á okkar kröfum. Órofa samstaða er okkar beittasta vopn,“ segir Guðmundur Ragnarsson.

Texti: Karl Eskil Pálsson fjölmiðlamaður.