16.3.2015

Iðnaðarmenn tala yfirleitt mannamál

Kastljósinu verður sérstaklega beint að kjaramálum á félagsfundi VM, sem haldinn verður á fimmtudagskvöld í VM húsinu, Stórhöfða 25, 3ju hæð. Fundurinn hefst klukkan 20:00. Halldór Arnar Guðmundsson forstöðumaður kjara- og menntasviðs VM segir að á fundinum gefist gott tækifæri til að ræða kröfugerð félagsins og stöðuna í kjaraviðræðum.

„Fulltrúar sambands og félaga iðnaðarmanna afhentu Samtökum atvinnulífsins á föstudaginn kröfugerð iðnaðarmann. Ég bind miklar vonir við þetta samstarf og köfugerðin er vel ígrunduð og rösktudd. Við viljum endurskoða launakerfin með það að markmiði að auka framleiðni, minnka yfirvinnu og leiðrétta laun iðnaðarmanna. Það liggur fyrir að laun iðnaðarmanna hafa hækkað minna en annarra hópa. Ef við lítum á launaliðiinn sérstaklega, þá er miðað við almenna hækkun launa um tuttugu prósent og að byrjunarlaun iðnaðarmanns með sveinspróf verði liðlega 381 þúsund krónur á mánuði.“

Fundinum sjónvarpað

„VM starfar á landsvísu, þannig að það eru margir félagsmenn sem ekki komast á fundinn. Fundurinn verður sendur út á heimasíðu félagins og með því móti gerum við flestum kleift að fylgjast með. Hægt verður að senda inn fyrirspurnir á netfangið gudnig@vm.is á meðan á fundi stendur og séð verður til þess að innsendum spurningum verður svarað.  Nálgun félagsins í kjaramálum hefur vakið verðskuldaða athygli og ég þykist vita að margir vilja ræða kröfugerðina nánar og fá svör við ýmsum spurningum. Fundurinn á fimmtudaginn er sem sagt upplagður vettvangur til að fá skýr svör við brennandi spurningum,“ segir Halldór.

Traust bakland lykilatriði

Á heimasíðu VM verður hægt að fylgjast með framvindu kjaraviðræðna og málum þeim tengdum. Félagsmenn eru hvattir til að fylgjast vel með, enda snerta kjaramál alla félagsmenn. Guðmundur Ragnarsson formaður VM segir að kröfugerðin hafi almennt fallið í góðan jarðveg meðal félagsmanna.
„Já, mér heyrist það, enda var kröfugerðin mótuð af félagsfólki og á næstu vikum reynir virkilega á bakland samninganefndarinnar. Samstaða er okkar beittasta vopn og þess vegna er mikilvægt að fundurinn á fimmtudaginn verði málefnalegur og sem flest sjónarmið komi fram. Iðnarmenn tala yfirleitt mannamál og eru ekkert að skafa utan af hlutunum, þannig að ég á von á líflegum umræðum. Traust bakland er lykilatriði, það er ekki nóg að leggja fram kröfugerð, það þarf líka að fylgja henni eftir af festu.“

Viðtal: Karl Eskil Pálsson fjölmiðlamaður