25.3.2015

Hækkun grunnlauna er stóra málið

„Mér líst ágætlega á að iðnaðarmannafélögin hafi náð samningi um sameiginlega aðkomu að komandi kjaraviðræðum, það hlýtur að styrkja stöðu þeirra við samningaborðið,“ segir Andri Már Blöndal stálsmiður  hjá Héðni í Hafnarfirði. Hann segir ekki óliklegt að á brattan verði að sækja í kjaraviðræðunum,  en vonar að ekki komi til verkfalla.

„Það er alveg á hreinu að launin eru of lág í dag og þeirri staðreynd verður að kippa í liðinn. Mér hugnast ágætlega aðferðafræði  VM um að hækka dagvinnulaunin, það er kominn tími til að viðurkenna að dagvinnulaunin duga ekki til til framfærslu venjulegrar fjölskyldu. Sjálfsagt þarf í framhaldinu að skoða aðra launaliði, en ég tel ýmislegt á sig leggandi í þessum efnum.  Það getur ekki verið skynsamlegt að þurfa alltaf að treysta á töluverða yfirvinnu, hvorki fyrir launþega eða vinnuveitendur.  Þessi hugmyndafræði um aukna framleiðni  á hiklaust að ræðast við samningaborðið og mér heyrist á Samtökum atvinnulífsins að vilji sé til þess.“ 

Andri Már hvetur iðnaðarmenn til að fylgjast vel með kjaraviðræðunum á komandi vikum. „ Þótt iðnaðarmannafélögin hafi sameinast í kjaraviðræðunum, koma samninganefndir félaganna til með að semja fyrir sitt félag. Það er nauðsynlegt að nefndirnar finni vel fyrir stuðningi félagsmanna og að sama skapi verða nefndirnar að miðla upplýsingum eins og hægt er. Mér heyrist á umræðunni að hækkun grunnlauna sé stóra málið. Iðnaðarmenn hafa setið eftir í launum, miðað við aðra hópa og því verður að breyta. Ef samið verður til skamms tíma er líka skynsamlegt að launin verði verðtryggð, rétt eins og segir í kröfugerð iðnaðarmanna.“

Viðtal: Karl Eskil Pálsson fjölmiðlamaður