7.10.2013

Kjararáðstefna VM 2013

Kjararáðstefna VM var haldin dagana 4. og 5. október á Hótel Selfossi. Ráðstefnan var lokaáfangi 18 mánaða vinnu félagsins við undirbúning komandi kjaraviðræðna.

Á félagsfundi í lok ráðstefnunnar var samþykkt einróma að félagið færi eitt fram í viðræðum um launaliði samninga í komandi kjaraviðræðum. Ákvörðun fundarins er studd með viðhorfskönnun, sem gerð var dagana fyrir ráðstefnuna, þar sem meirihlutinn hafnaði aðild að viðræðum um samræmda launastefnu á almenna vinnumarkaðnum.

Frá hruni er ekki merkjanleg hækkun á launum í vél- og málmiðngreinum, samanborið við aðrar iðngreinar, þó allan tíman hafi skort starfsfólk í greinarnar og algert hrun hafi orðið t.d. í byggingariðnaði. Vél- og málmtæknigreinar eru með mikilvægustu þjónustugreinum við  undirstöðu útflutningsgreinar þjóðarinnar, sem allar hafa styrkst verulega frá hruni.

Það er einkennilegt að kjör starfsfólks í vél- og málmtæknigreinum batni ekki við þessar aðstæður en kaupmáttaraukning mælist t.d. hjá stéttum í verslun og þjónustu. Allar vísbendingar sýna að vél- og málmtæknigreinar eru rangt verðlagðar inn í hagkerfi landsins.

Félagið krefst þess að fulltrúar fyrirtækja í málm-og véltæknigreinum komi að samningaborðinu í komandi viðræðum, án miðstýringar SA, svo aðilar geti leitað sameiginlega að lausnum og gert störf í vél- og málmtæknigreinar eftirsótt. Nóg er af spennandi störfum innan greinanna með miklum möguleikum til starfsþróunar og góðra kjara.

Á fundinum var m.a. samþykkt ályktun um kennitöluflakk, þar sem félagið styður allar aðgerðir sem miða að sem eyða þessari meinsemd í íslensku efnahagslífi.

Sjá fréttatilkynningu

Sjá nánar um kjararáðstefnu VM