16.5.2013

Fréttatilkynning Norræna vélstjórasambandsins

Á fundi Norræna vélstjórasambandsins (Nordiska Maskinbefälsfederationen -NMF), þann 6. og 7. maí 2013 í Þórshöfn, var samþykkt fréttatilkynning um vélstjóramenntun á norðurlöndum.

Þar lýsir sambandið yfir vonbrigðum sínum með að ekki skuli hafa komist á samvinna milli norðurlandanna um menntun vélstjóra og atvinnuskírteinaútgáfu. Sambandið telur að viðkomandi stjórnvöld, ásamt þeim aðilum í atvinnulífinu sem málið varðar, ættu að hefja samvinnu um markmið STCW-samþykktarinnar sem gæðatryggingu á námi og einsleitni náms og skírteinaútgáfu.

Vegna vanþekkingar er of algengt að mönnum sé gert erfiðara að fara milli staða þar sem forsendur fyrir áritunum viðkomandi fánaríkis virðist ekki til staðar.

NMF vísar í þessu sambandi á atriði í STCW 2010 Manila samþykktinni, um gegnsæi og vinnubrögð sem koma í veg fyrir svindl og útgáfu falskra skjala, sem geta komið að gagni við að tryggja nemum á norðurlöndum fyrirsjáanleika í sínu langa námi.
Áþekk viðhorf og lausnir eru í Bolognaferlinu um Evrópskan gæðaramma (RQF) sem hefur það að markmiði að auðvelda hreyfanleika nemenda þvert á landamæri.

NMF telur að meðhöndla eigi vélstjórnarnám með sama hætti og sér fyrir sér sameiginlegt skjal þar sem greinilega kemur fram hvað er viðurkennt og hvað ekki, þ.a. norðurlöndin meðhöndli STCW-samþykktina með sama hætti.