10.4.2013

Úthlutun styrkja úr Akki 2013

Akkur, Styrktar- og menningarsjóður VM, úthlutar árlega fjárstyrkjum til rannsóknarverkefna, brautryðjenda- og þróunarstarfa, menningarstarfsemi og listsköpunar. Markmið og verkefni sjóðsins er að styrkja m.a. rannsóknir og annað sem kemur félagsmönnum VM til góða við nám og störf til lands og sjávar, auk þess að styrkja brautryðjenda- og þróunarstarf sem hefur samfélagslegt gildi svo og menningarstarfsemi og listsköpun.
Í ár vor veittir 5 styrkir og fór afhending þeirra fram í gær þriðjudaginn 9. apríl kl. 16:00 í VM húsinu Stórhöfða 25, 2. hæð.

Eftir taldir hlutu styrk vegna menningarmála og listsköpunar:

Halaleikhópurinn – Skrif handrits fyrir leikhópinn -kr. 600.000,-
Halaleikhópurinn var stofnaður árið 1992 með það að markmiði að „iðka leiklist fyrir alla“ Leikhópurinn samanstendur af bæði fötluðum og ófötluðum og eru settar upp leiksýningar á hverju ári.

List án landamæra 2013 – kr. 500.000,-
Listahátíðin list án landamæra 2013. List án landamæra er kröftug hátíð sem brýtur niður múra. Á hátíðinni vinna saman ólíkir aðilar að allskonar list. Markmið hátíðarinnar er að sjá tækifæri, ekki takmarkanir. List án landamæra vill koma list fólks með fötlun á framfæri og koma á samstarfi milli fatlaðs og ófatlaðs listafólks

Hrafnista – Umhverfisbreytingar á öldrunarheimili – kr. 800.000,-
Verið er að skipuleggja nýtt húsnæði iðjuþjálfunar á Hrafnistu í Reykjavík. Þar er lítið af gluggum og birtulítið. Tvinna á saman  listsköpun og umhverfi meðal annars með því að mála náttúru-, dýra- og landslagsmyndir á veggina til að breyta umhverfinu og gera það meira áhugavert fyrir heimilismenn, starfsmenn og aðra gesti. Skírskota í íslenska náttúru og mannlíf.

Eftirtaldir hlutu styrk til rannsókna, brautryðjenda- og frumkvöðlastarfs:

Bókaútgáfan Hólar – Þorsteinn Þorleifsson járnsmiður í Kjörvogi – kr. 400.000,-
Æviferill hugvits- og iðnaðarmanns á þessum tímum hefur ekki verið gerði mikil skil. Með útgáfu þessarar bókar gefst lesendum einstakt tækifæri til að kynnast einum af þeim fáu Íslendingum sem lærðu iðngrein um miðja 19. öld. Vatnsdælingurinn Þorsteinn Þorleifsson nam járnsmíði í Reykjavík og síðan í Kaupmannahöfn.

Elsa Þ. Eysteinsdóttir og Sólveig S. Halldórsdóttir – Vísindi fyrir börn – kr. 600.000,-
Verið er að útbúa kennslu- og námsefni í vísindum fyrir börn. Útbúnar verða námskeiðslýsingar fyrir börn í 1-7. bekk grunnskóla sem henta í eina kennslustund hver. Stefnt er að 20-30 mismunandi námskeiðum. Hvert námskeið mun gefa börnum tækifæri til að læra og nota hugtök í náttúrufræði og vísindum og vinna með náttúrufyrirbæri. Á síðari stigum er vonast til að grundvöllur verði fyrir stofnun fyrirtækis í kringum vísindakennslu fyrir börn. Slíkt fyrirtæki myndi bjóða upp á ýmis konar tækifæri fyrir börn til að reyna sig við tækni og vísindi með skemmtilegu ívafi. Námskeiðin sem hér er sótt um styrk til að þróa eru hugsuð sem prófun á hver grundvöllur slíks fyrirtækis er.