15.2.2013

Ályktun stjórnar VM vegna frumvarps um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða.

Á stjórnarfundi þann 14. febrúar samþykkti stjórn VM eftirfarandi ályktun vegna frumvarps til laga um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða.

Ályktun stjórnar VM–Félags vélstjóra og málmtæknimanna
vegna frumvarps til laga um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða. 

Stjórn VM–Félags vélstjóra og málmtæknimanna mótmælir harðlega fyrirhuguðu frumvarpi um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða. Með fyrirhuguðum breytingum á að taka  aflaheimildir frá undirstöðufyrirtækjum í sjávarútvegi. Það mun rýra afkomu þeirra og stöðuleika, með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Sjávarauðlind okkar er takmörkuð og því eru takmörk fyrir því hvað hægt er að deila henni út á marga, til nýtingar með þjóðhagslega hagkvæmni að leiðarljósi. Í umsögnum sínum um síðustu lagafrumvörp vegna breytingar á lögum um stjórna fiskveiða, hefur VM margoft bent á að sjávarútvegur er orðinn hátækni atvinnugrein og vegna samkeppnissjónarmiða er ekki hægt að rýra afkomu greinarinnar frekar. Tækniframfarir og hagræðing verður að vera framtíðarsýnin sem unnið er útfrá og hana verður að nýta i sjávarútvegi eins og í öðrum atvinnurekstri. Stjórnvöld og samfélagið verða að horfast í augu við breytta atvinnuhætti í sjávarútvegi. Vandamál byggðarlaga sem eiga undir högg að sækja verður að leysa með öðrum hætti en að skerða lífskjör almennings til framtíðar. Stjórnvöld verða að sætta sig við þá staðreynd að sjávarútvegur verður ekki rekinn frá hverri höfn sem til er hringinn í kringum landið.

Með þessu frumvarpi er verið að nálgast lausnirnar eins og svo mörg önnur vandamál samfélagsins, þar sem neitað er að horfast í augu við staðreyndir og framkvæmdir stundagjörningar sem komandi kynslóðir fá að greiða fyrir með lakari lífsafkomu í þessu landi.