16.11.2012

Fréttatilkynning frá Norræna vélstjórasambandinu

Á fundi Norræna vélstjórasambandsins (Nordiska Maskinbefälsfederationen -NMF), 5. og 6. nóvember 2012 í Stavanger, var samþykkt fréttatilkynning um notkun koltvísýrings (CO2) sem slökkvimiðils.
 
NMF harmar að notkun koltvísýrings (CO2) sem slökkvimiðils um borð í skipum hafi ekki verið bönnuð.
 
Í fréttatilkynningunni segir efnislega að þó vel menntuð og þjálfuð áhöfn í vélarrúmi skips geti skynjað eld og eldhættu, jafnvel betur en eftirlitskerfi, geta alltaf orðið óhöpp og eldur orðið laus. Þá skapast mikið hættuástand því gnægð eldfimra efna er fyrir eldinn að nærast á og mikill hiti myndast. Slökkvistarf er mjög erfitt og hættulegt við þessar aðstæður og miklar líkur eru á skemmdum á mikilvægum búnaði. Við slíkar aðstæður er tíminn, sem það tekur að afmarka hættuna, úrslitaatriði.
 
Koltvísýringur (CO2) er notaður sem slökkvimiðill í mörgum skipum, eftir að Halon, sem er hættulegra efni, var bannað. Mörg útgerðarfyrirtæki hafa sett mannlega þáttinn í forgang og sett vatnsgufuslökkvikerfi í skip sín.
 
NMF mælist til þess að siglingayfirvöld á norðurlöndum banni köfnunargös sem slökkvimiðil og vill í því sambandi benda á eftirfarandi atriði varðandi notkun á koltvísýringi sem slökkvimiðli.
 
Dauðsföll hafa orðið vegna óviljandi útlosunar á köfnunargasi.
 
Skilyrði fyrir útlosun á köfnunargasi eru tímafrek og áhættuþáttur í sjálfu sér. Þar sem ekki má losa út köfnunargasið fyrr en búið er að yfirgefa vélarúmið, einmitt þegar oft er nauðsynlegt að hafa mannskap á staðnum til að keyra búnað á neyðarstýringu og afmarka skaðan. Skipið er í raun yfirgefið.
Vélarúmið þarf að vera alveg loftþétt en það getur tekið tíma að ganga frá hlutum á þann veg.
Áhafnarmeðlim í ákveðinni stöðu um borð er falið að hleypa köfnunargasinu á. Ef viðkomandi einstaklingur slasast er óvíst að sú aðgerð verði framkvæmd ef aðrir áhafnarmeðlimir kunna ekki að hleypa köfnunargasinu á.
 
Þar sem köfnunargas fjarlægir einungis súrefnið út andrúmsloftinu, en minnkar ekki hitann á brunasvæðinu, er mikil hætta á að eldur blossi upp aftur ef súrefni kemst að gegnum óþéttar loftrásir eða þegar áhöfn vélarúmsins þarf að komast á staðinn og þá mögulega með hörmulegum afleiðingum.
 
Síðast en ekki síst eru ómanneskjulegar kröfur settar á þann sem stjórnar slökkviaðgerðum um borð og gefur endanlega skipun um að hleypa köfnunargasinu á rými þar sem eldur er laus. Hann getur aldrei verið alveg öruggur um að það sé mannlaust og þétt, sem er forsenda þess að hann megi hleypa gasinu á.

Með vatnsþokuslökkvikerfi losna menn við öll þessi vandamál. Sá sem fyrst verður var við eld getur hleypt slökkvimiðlinum á rýmið þar sem eldurinn er, vitandi það að einungis eldurinn deyr og hægt er að halda áfram nauðsynlegum aðgerðum til að hefta eldinn og draga úr skaða.
 
Sjá fréttatilkynningu