2025
Viðtal: „Eins og að vera yfirvélstjóri á mörgum togurum“
Fréttir

Viðtal: „Eins og að vera yfirvélstjóri á mörgum togurum“

„Hér í stjórnsalnum er alltaf einn maður á vaktinni. Hann fylgist með myndavélum, tekur á móti talstöðvarsamskiptum við stjórnstöð Landsnets og fylgist með rekstri virkjananna,“ segir Siguróli Sigurðsson, vélstjóri á vakt í Búrfellsvirkjun, þegar fulltrúa VM ber að garði á fallegum laugardegi í byrjun maí. Búrfellsvirkjun er í eigu Landsvirkjunar.

Búrfellsvirkjun er í Þjórsárdal og er ein mikilvægasta vatnsaflsvirkjun landsins. Hún var tekin í notkun 1969 og nýtir rennsli Þjórsár. Orkuvinnslugeta Búrfellsstöðvar er 1.885 gígavattstundir á ári en túrbínurnar sex sem tilheyra Búrfellsvirkjun framleiða 270 megavött. Framleiðslugetan er um 370 megavött þegar Búrfell II er talin með. Nánar má lesa um Búrfellsvirkjun hér til hliðar.

Í stjórnstöð er virkjununum stýrt, eins og áður segir, í samvinnu við stjórnstöð Landsnets, sem er í Reykjavík. Þaðan er keyrslunni á vélunum stýrt og hversu mikið rafmagn er framleitt. „Okkar hlutverk er meðal annars að annast vatnsstýringu á svæðinu og hversu mikið vatn fer í gegnum vélarnar,“ segir Siguróli þegar hann sýnir blaðamanni stjórnstöðina. „Við söfnum vatni í lónin en virkjanirnar hérna á svæðinu eru allar meira og minna í röð, þannig að ef þú bætir við keyrslu í gegnum eina virkjun þá kemur meira vatn niður sem þú þarft að keyra í gegnum næstu stöð í röðinni. Og svo koll af kolli.“

Í byrjun maí var mikið vatnsveður. Þá var mikið um að vera á vaktinni. „Þegar svona gerist opnum við lokur til að lónin fari ekki á yfirfall. Þetta er búið að vera svakalegt hérna síðustu daga. Það var svo mikil innkoma í lónin að við náðum ekki að framleiða rafmagn úr þessu öllu. Við þurftum að hleypa þessu fram hjá að hluta. Í því felst auðvitað ákveðin sóun á vatnsafli. En við getum ekki stýrt hvar vatnið safnast saman – hvar rignir mest.“

Siguróli var yfirvélstjóri á togurum Brims í 12 ár áður en hann söðlaði um og hóf störf hjá Landsvirkjun fyrir rúmu ári. „Þegar ég var að byrja hérna, og reyna að læra á allar vélarnar, sagði ég stundum að þetta væri svipað og að vera yfirvélstjóri á mörgum skipum samtímis. Engin virkjun er eins. Hér eru sjö virkjanir en þegar ég var hjá Brimi vorum við með þrjá ísfisktogara, þrjú uppsjávarskip og tvo frystitogara í rekstri. Það að vinna hér er svolítið eins og að vita ekki í upphafi dags á hvaða skipi maður vinnur þann daginn,“ útskýrir hann.

Þegar Siguróli er beðinn að bera þessi störf saman svarar hann því til að í þessu starfi snúist auðvitað allt um rafmagnsframleiðslu og stýringu á rennsli. Á sjónum sé rafmagn vissulega líka framleitt, fyrir búnað skipsins. „Það er margt ansi líkt. Við erum hér í Búrfellsvirkjun með glussabúnað og svo dísilvélar sem eru neyðarrafstöðvar fyrir svæðið – vélar sem við þurfum að annast og prófa reglubundið.“ Margt sé hins vegar líka ólíkt. Nánar er vikið að því hér síðar í viðtalinu.

Viðtalsbrotið er úr nýjasta tölublaði Tímarits VM. Það má í heild lesa hér.