
Krafturinn felst í samstöðunni
Barátta stéttarfélaga fyrir bættum kjörum og réttindum launafólks er samofin íslenskri samfélagsþróun. Alþýðusamband Íslands hefur allt frá árinu 1916, með beinum eða óbeinum hætti, varðað leiðina í réttindabaráttu launafólks.
ASÍ er stærsta fjöldahreyfing launafólks á Íslandi en innan vébanda hennar eru um tveir þriðju hluta launafólks í skipulögðum samtökum á Íslandi. Hlutverk ASÍ er að berjast fyrir bættum kjörum félagsfólks og standa vörð um réttindi þess gagnvart atvinnurekendum og ekki síst stjórnvöldum. Sambandið sinnir auk þess margvíslegri þjónustu við aðildarfélög og félagsfólk og tekur virkan þátt í erlendu samstarfi samtaka launafólks.
Á síðasta aðalfundi, vorið 2024, var samþykkt tillaga þess efnis að hugur félagsfólks VM til aðildar að ASÍ verði kannaður. Áður en sú viðhorfskönnun verður sett af stað vil ég draga fram nokkrar staðreyndir um ASÍ.
Með aðild okkar að ASÍ gefst okkur tækifæri á að láta rödd okkar heyrast við borðið þar sem línurnar eru lagðar í kjarabaráttu launafólks á Íslandi. Saman höfum við unnið stóra sigra, undir forystu ASÍ, sama hvort við horfum til nútíðar eða þátíðar.
Þegar við horfum á helstu sigra síðustu aldar má nefna Vökulögin 2021, Gúttóslaginn 1932, almannatryggingar 1936, vinnulöggjöfina sem sett var 1938 og orlofsrétt sem náðist fram 1942. Á síðari hluta aldarinnar má nefna mikilvægar vörður á borð við jöfn laun fyrir sömu vinnu (1962) , lífeyrissjóði (1969), sjúkrasjóði (1979) og þjóðarsáttina (1990). Í seinni tíð má nefna lækkun matarskatts (1994), fæðingarorlof feðra (2000), Virk-starfsendurhæfingarsjóð (2008), stofnun Bjargs – íbúðafélags (2016) og lífskjarasamningana (2019) , sem snerust meðal annars um styttingu vinnuvikunnar. Loks má minnast á fríar skólamáltíðir, sem við náðum fram í síðustu samningum.
Á Íslandi eru lífsgæði eins og þau gerast best, í alþjóðlegum samanburði. Þau lífsgæði hvíla á hugrekki, þori og ekki síst samstöðu kynslóðana sem á undan okkur koma; fólks úr röðum vinnandi stétta. Okkur sem njótum góðs af þessum sigrum þætti sennilega óhugsandi að sjá fyrir okkur lífið án sumra þeirra réttinda sem hér að ofan eru talin upp. Þau félög sem hafa staðið utan ASÍ hafa, vegna styrks sambandsins, notið góðs af vinnunni. Ég hef sjálfur, frá fyrri tíð, reynslu af því að tilheyra litlu félagi sem þurfti að berjast fyrir áheyrn stjórnvalda.
Þrátt fyrir að sigrarnir hafi verið margir er verkefninu hvergi nærri lokið. Við þurfum ekki aðeins að halda áfram að berjast fyrir bættum réttindum heldur hafa nýleg dæmi sýnt okkur að við megum ekki sofna á verðinum gagnvart þeim réttindum sem við höfum þegar samið um. Félagsleg undirboð og vinnumansal – oft gagnvart fólki af erlendum uppruna – er dæmi um vandamál sem fer ört stækkandi í okkar samfélagi sem og öðrum.
Það væri að mínum dómi mikill afleikur að segja skilið við ASÍ. Við þurfum á sterkum heildarsamtökum að halda til að verja réttindi okkar. Það gildir ekki síst um minni félög sem vilja viðhalda sjálfstæði sínu. Við hjá VM höfum með góðum árangri nýtt okkur bæði hagfræðinga og lögfræðinga, auk annarra sérfræðinga, sem ASÍ hefur innan sinna raða. ASÍ vinnur einmitt að því að styrkja bæði hagfræði- og lögfræðideildina, sem eru mikilvægar stoðdeildir fyrir aðildarfélögin.
Gagnaðilar okkar við samningaborðið eru skipulagður og þéttur hópur sem mikilvægt er að geta staðið upp í hárinu á. Við höfum undanfarin misseri og ár fundið fyrir áhrifamætti samstöðunnar – þegar á hefur þurft að halda. Árangur samvinnu okkar innan Fagfélaganna hefur enn undirstrikað mikilvægi þess að vinna saman.
Ágætu félagar. Saman hafa vinnandi stéttir unnið merkilega sigra í gegn um tíðina. Það er bjargföst trú mín að samstaða sé sú uppskrift sem við þurfum að halda áfram að nota á komandi árum. Í henni felst krafturinn.
Guðmundur Helgi Þórarinsson, formaður