2025
Nýta reynslu af sjó til að innleiða viðhaldskerfi í landi
Fréttir

Nýta reynslu af sjó til að innleiða viðhaldskerfi í landi

Viðtal úr Tímariti VM, 2 tbl. 2024

Þeir Sigurgeir Þráinn Jónsson og Kolbeinn Sigmundsson eru vélfræðingar sem eiga það sameiginlegt að hafa alið manninn til sjós framan af starfsævinni en eru nú komnir í land og starfa fyrir fasteignafélagið Heima, sem sér um rekstur á fjölmörgum stórum húseignum á höfuðborgarsvæðinu. Þeir settust niður með blaðamanni í Egilshöll og sögðu frá einu og öðru forvitnilegu.

„Móðurfélagið á bæði Egilshöll og Smáralind og fleiri byggingar. Þetta er annað stærsta fasteignafélag á landinu. Félagið heitir Heimar en hét áður Reginn. Ég sé nú eingöngu orðið um Egilshöllina. Hann Kolli hérna fer víðar og er bæði í Smáralind, Turninum og Hafnartorgi,“ segir Sigurgeir.

Þeir félagarnir hafa langa reynslu sem vélstjórar á sjó og nýta nú reynslu sína og þekkingu við rekstur flókinna húseigna. Þeir taka meðal annars þátt í að innleiða viðhaldskerfi fyrir fasteignir Heima, sem ekki er ósvipað því sem innleitt var í skipum fyrir einhverjum áratugum.

Tölvuvætt utanumhald

„Já, þessi umsjón hefur smám saman færst inn í kerfi sem eru ekki ósvipuð þeim sem við þekkjum af sjónum. Þetta felur það í sér að allt viðhald er skipulagt og utanumhaldið er tölvuvætt. Þetta er það yfirgripsmikið að það er alveg nauðsynlegt að hafa einhver verkfæri til þess að fylgjast með framvindu á nauðsynlegu viðhaldi. Þarna inni eru auðvitað loftræstikerfin og orkukerfin. Það er ekkert verið að bíða eftir því að hlutir bili heldur er viðhaldið skipulagt. Það getur verið mikið í húfi og margt farið úr skorðum ef upp koma alvarlegar bilanir,“ segir Kolbeinn. „Þetta er orðið stórt félag og húsin eru stór og kerfin sem við sjáum um eru þar af leiðandi stór. Þetta er talsvert meiri umsjón en áður var og störfin breytast.“

„Til að mynda hér í Egilshöllinni eru það bara öll kerfi hússins sem heyra undir okkur. Þetta hús hefur dálitla sérstöðu af því að hér erum við með skautasvell til viðbótar við allt hitt. Þannig er hér nokkuð öflugt frystikerfi sem er nú vanalega ekki í húsum. Síðan eru hitakerfi í fótboltavöllunum. Þetta er bara nokkuð flókin og umfangsmikil starfsemi í húsinu. Undir fótboltavöllunum er kerfi sem tekur 27 þúsund lítra af frostlegi. Þetta er bara eitt kerfi af mörgum,“ bætir Sigurgeir við.

Sjálfbjarga á sjó

Breytingin frá því að starfa á sjó og yfir í að sjá um kerfi eins og þessi er minni en ætla mætti í fyrstu. Kolbeinn segir kerfin á sjónum geta verið um margt flóknari en þau sem við er að eiga í landi. „Ég til dæmis kom af 125 metra uppsjávarskipi með frystingu, mjög tæknivæddu. Þar eru stór og flókin kerfi.“

„Einmitt,“ tekur Sigurgeir undir. „Það er líka þannig þegar maður er langt úti í hafi að þá þarf maður að vera sjálfbjarga um flest. Það er ekkert hægt að skjótast í land eftir þjónustu og varahlutum. Margir sjá það sem einn af kostunum við það að fá vélstjóra sem hefur verið á sjó að þeir geta bjargað sér í ótrúlegustu aðstæðum. Maður var líka vanur því þegar skip voru í landi að fá viðgerðarmenn í snarhasti. Skip eru ekki látin liggja við bryggju að óþörfu. Það er auðvitað öðruvísi hér. Það tók mig smá tíma að venjast því. En við erum kannski svolítið eins og heimilislæknirinn. Við þurfum helst að vita sem flest um öll kerfin.“

„Það má kannski líkja þessu líka við tónlist, fyrir þau sem til þekkja,“ segir Kolbeinn. „Ef maður hefur góðan grunn getur maður raunar farið í allar áttir þaðan. En maður verður að hafa trausta undirstöðu. Sjálfur tók ég sveinsprófið fyrst og fór svo í Vélskólann. Það er nú aðeins búið að breyta námstilhöguninni frá því að við menntuðum okkur,“ segir Kolbeinn.

Viðtalið í heild má lesa nýjasta hefti af Tímariti VM.