Fagfélögin gagnrýna óþarfar verðhækkanir
Talsmenn stærstu matvöruverslana landsins boðuðu í desember umtalsverðar verðhækkanir á matvöru. Formaður Neytendasamtakanna lét í kjölfarið hafa eftir sér í fjölmiðlum að menn virtust vera að panta verðhækkanir.
ASÍ hefur á vef sínum bent á að fyrirtæki á borð við Ölgerðina og Kjörís hafi leitt verðhækkanir á nýju ári. Ölgerðin hafi hækkað verð um 4% og Kjörís tæplega 3%.
Hækkanirnar vinna gegn því sameiginlega markmiði aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda að vinna gegn verðbólgu og ná niður vöxtum.
Áhugavert er að skoða þróun og horfur verðlags á matvöru í kring um okkur. Í Peningamálum kemur fram að verðbólga í helstu viðskiptalöndum Íslands sé á niðurleið. Í nýrri skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (World Economic Outlook) kemur fram að vöruverð á heimsvísu sé á niðurleið.
ASÍ bendir sömuleiðis á að hrávöruverð á matvöru hafi lækkað um 2% á síðasta ári. Miklar verðhækkanir árana 2022-2023 hafa þannig gengið til baka. „Ýmsar hrávörur sem notaðar eru til framleiðslu hér á landi, t.d. olía og áburður lækkuðu einnig á síðasta ári,“ segir á vef ASÍ. Í sömu skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins segir að evrópsk fyrirtæki geti tekið á sig launahækkanir án þess að fleyta þeim út í verðlagið. Hækkanir umræddra fyrirtækja eru því óþarfar.
Í þessu ljósi gagnrýna Fagfélögin harðlega verðhækkanir á matvöru og öðrum nauðsynjavörum. Vakin er athygli á að samningsforsendur Stöðugleika- og velferðarkjarasamningnsins kveða á um að 12 mánaða verðbólga í ágúst í ár mælist ekki yfir 4,95%. Boðaðar verð- og gjaldskrárhækkanir vinna bersýnilega gegn því markmiði.
Fagfélögin skora á birgja og matvöruverslanir að draga áform um verðhækkanir til baka og vinna með samfélaginu að því markmiði að draga úr verðbólgu og vinna að áframhaldandi lækkun vaxta.