2024
Pistill: Stórir áfangar og nýjar áskoranir
Pistlar

Pistill: Stórir áfangar og nýjar áskoranir

Kæru VM félagar.

Árið sem nú er að renna sitt skeið hefur verið bæði viðburðaríkt og annasamt. Flestallir kjarasamningar urðu lausir á árinu. Aðildarfélög ASÍ klofnuðu í afstöðu sinni til þess hvort fara ætti í hlutfalls- eða krónutöluhækkanir við gerð kjarasamninga. Stærri hluti aðildarfélaganna vildi fara krónuleið en Fagfélögin (án Byggiðnar) kusu að fara blandaða leið. Í þann hóp slógust aðrir stórir hópar á vinnumarkaði.

Aðalmálið var að gera samninga sem gætu stuðlað að því að ná niður verðbólgu og vöxtum. Það var ekki aðeins fyrir launafólk heldur líka fyrir fyrirtækin; sérstaklega smá og meðalstór. Það er ekki síður mikilvægt fyrir ríkið sjálft, sem þarf að standa straum af gífurlegum vaxtakostnaði.

Um kjaramálin ræðum við Benóný Harðarson ítarlega í viðtali í þessu blaði.

Benóný Harðarson, forstöðumaður kjaradeildar Fagfélaganna, hefur staðið í ströngu við kjarasamningsgerð undanfarin misseri.

Allir þurfa að vera með

Því miður virðast mörg af stóru fyrirtækjunum hafi kosið að nota tækifærið og auka hagnað sinn, með tilheyrandi kostnaði fyrir samfélagið. Ef takast á að ná niður verðbólgu og vöxtum verða allir að spila með; ekki aðeins launafólk. Vextir eru sem betur fer farnir að lækka, og þó fyrr hefði verið, og verðbólgan hefur þrátt fyrir verðhækkanir stórfyrirtækja verið á niðurleið seinni hluta ársins. Það léttir róðurinn verulega, fyrir launafólk, fyrirtæki, ríki og sveitarfélög. Það voru því mikil vonbrigði þegar bankarnir boðuðu vaxtahækkanir á dögunum – loksins þegar við sáum fram á betri tíma. Þar á bæ hefur ekkert verið dregið úr kröfum um arðsemi.

Tímamótasamningar

Þegar þetta er skrifað hefur VM skrifað undir 14 kjarasamninga á árinu. Fjórir eru enn eftir. Það eru alltaf gleðitíðindi þegar kjarasamningar eru samþykktir. Mér þótti hins vegar sérstaklega ánægjulegt að klára samninga við sjómenn, sem höfðu verið samningslausir allt of lengi.

Tvennt stendur þar upp úr; annars vegar að hafa náð inn miklum umbótum á lífeyrissöfnun sjómanna og hins vegar að hafa náð fram mikilli hækkun á tímakaupi vélstjóra og hafa tengt þær hækkanir til frambúðar við tímakaup í landi.  

Páll Heiðar Aadnegard tekur til máls á ráðstefnu Fagfélaganna fyrir trúnaðarmenn á dögunum.

Þá verð ég einnig að nefna hve ánægður ég er með að félagið hafi náð samningi við Reykjavíkurborg. Ég býð fólk í okkar greinum sem hefur þurft að vera í öðrum stéttarfélögum velkomið að ganga í raðir VM.

Sífelldar áskoranir

Þrátt fyrir að búið sé að semja við flesta hópa er baráttunni ekki lokið. Henni lýkur aldrei. Þannig hefur tilfellum þar sem fyrirtæki gera ekki upp við fólk í samræmi við kjarasamninga fjölgað verulega. Brögð eru að því að litlum tekjuliðum sé sleppt, umsamdar hækkanir skili sér ekki og að brotið sé á launafólki hvað tímaskráningu varðar, svo eitthvað sé nefnt. Þetta á bæði við á sjó og á landi.

Annað dæmi um áskoranir þar sem berjast þarf fyrir umsömdum réttindum er stofnun „stéttarfélagsins“ Virðingar en félagið hefur gert kjarasamning við SVEIT, samtök fyrirtækja á veitingamarkaði. Þar er vegið að fjölmörgum atriðum sem áttu að vera í höfn fyrir löngu. Dagvinnutímabilið er lengra, vaktaálag minna og orlofsréttindi skert, svo eitthvað sé nefnt. Þetta minnir á þegar Play stofnaði stéttarfélag fyrir sitt starfsfólk.

Tímarit VM kom út nú í desember.

Það er ljóst að samtök launafólks þurfa að standa þétt saman og stoppa svona gjörninga í fæðingu. Við verðum öll að standa saman og verja þau réttindi sem áunnist hafa í okkar löngu baráttu.

Við erum sterkari saman.

Útgáfan

Nokkrar breytingar hafa verið gerðar á Tímariti VM að þessu sinni. Nýr ritstjóri hefur tekið við blaðinu, sem unnið er í nánu samstarfi við starfsfólk VM. Óhætt er að segja að aukin áhersla sé á viðtöl við félagsfólk en útlit blaðsins hefur einnig tekið breytingum. Ég vil færa viðmælendum sérstakar þakkir fyrir framlag sitt til blaðsins.

Að lokum vil ég óska félagsfólki okkar og fjölskyldum þess gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári.

 

Guðmundur Helgi Þórarinsson, formaður VM.

Pistillinn birtist fyrst í Tímariti VM í desember 2024.