2024
Fyrir­séð skerðing á líf­eyris­réttindum hjá Gildi
Fréttir

Fyrir­séð skerðing á líf­eyris­réttindum hjá Gildi

Áform ríkisstjórnarinnar um að lækka framlag til jöfnunar á örorkubyrði almennra lífeyrissjóða, sem birtist í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar, mun leiða til skerðingar á lífeyrisréttindum sjóðfélaga Gildis. Þetta kemur fram í frétt á vef lífeyrissjóðsins. Þar kemur fram að lækka eigi framlagið um 4,7 milljarða króna.

Í fréttinni er greint frá því að ástæðan fyrir þessu sé að tíðni örorku sé mismikil eftir starfsgreinum. Gildi er m.a. lífeyrissjóður verkafólks og sjómanna, þar sem örorka er töluvert meiri en hjá flestum öðrum sjóðum. „Hver króna sem fer í að greiða endurhæfingar- og örorkulífeyri minnkar samsvarandi getu til að greiða ellilífeyri. Það þýðir að því hærri sem örorkubyrði lífeyrissjóðs er, því færri krónur eru í sjóðnum til að greiða ellilífeyri. Ellilífeyrisréttindi eru því almennt lægri hjá sjóðum með hátt hlutfall örorku. Af þeirri ástæðu var árið 2005 samið um það í kjarasamningum að ríkið greiddi sérstakt „framlag til jöfnunar örorkubyrði lífeyrissjóða“ til að minnka þann mun sem mismunandi tíðni örorku skapar milli lífeyrissjóða,” segir í fréttinni.

Fram kemur enn fremur að Gildi-lífeyrissjóður nýti framlag ríkisins til jöfnunar á örorkubyrði annars vegar til hækkunar á réttindaöflun greiðandi sjóðfélaga og hins vegar til hækkunar á lífeyrisgreiðslum sjóðfélaga sem komnir séu á lífeyri. „Samanlagt hækkaði framlag ríkisins á síðasta ári réttindi sjóðfélaga Gildis um 5,7%. Miðað við fyrirliggjandi frumvarp um afnám örorkuframlagsins verður hækkun réttinda sjóðfélaga einungis 2,85% á næsta ári og 0% til frambúðar. Það þýðir með öðrum orðum að verði framlag til jöfnunar örorku lagt niður mun það leiða til þess að réttindi sjóðfélaga Gildis skerðast samanlagt að óbreyttu um 5,7%.”

Gildi lífeyrissjóður hefur sent Alþingi ítarlega umsögn vegna fyrirætlana stjórnvalda um að fella niður framlag til jöfnunar á örorkubyrði lífeyrissjóða.

Umsögnina má lesa hér.

Frétt á vef Gildis er hér.