Vilt þú sækja Kvennaráðstefnu ASÍ fyrir hönd VM?
VM óskar eftir fulltrúum félagsins til að sækja Kvennaráðstefnu ASÍ sem fram fer á Akureyri 14.-15. nóvember næstkomandi. Markmið Kvennaráðstefnu í ár, eins og endranær, er að virkja samtakamátt ASÍ-kvenna til að styðja og hvetja konur til áhrifa í hreyfingunni, ásamt því að fræðast, brýna verkalýðshugsjónina og hafa gaman saman.
Á ráðstefnunni verða málefni er lúta að velferð, öryggi og réttindum launakvenna sett á dagskrá. Helstu jafnréttisáherslur frá 45. þingi eru að leiðrétta skuli vanmat á kvennastörfum, taka skuli enn betur á móti þolendum kynferðislegrar áreitni og ofbeldi í vinnu og vinnutengdu umhverfi og að beina þurfi sjónum að stöðu foreldra og þrýsta á aðgerðir sem draga úr ummönunartímabilinu sem myndast hefur milli fæðingarorlofs og leikskóla.
VM greiðir ferðakostnað fulltrúa félagsins vegna ráðstefnunnar, ráðstefnugjald og gistingu, en ráðstefnugestir munu gista á Hótel KEA eða á Berjaya Akureyri Hotel. Innifalið í ráðstefnugjaldi er hátíðarkvöldverður og hádegisverður auk morgunverðar á hótelunum.
Áhugasamir einstaklingar úr röðum félagsins eru beðnir um að hafa samband við aslaug@vm.is, svo hægt sé að ganga frá skráningu og fá nánari upplýsingar.
Yfirskrift ráðstefnunnar er: Ryðjum hindrunum úr vegi – kvenfrelsi og stéttabarátta.