Fjölmenni mótmælti aðgerðaleysi stjórnvalda
Fjölmenni kom saman á Austurvelli í gær, þriðjudaginn 10. september, þar sem stærstu samtök launafólks á Íslandi höfðu boðað til mótmæla. Að viðburðinum stóðu ASÍ, BSRB og KÍ. Þar var aðgerðaleysi stjórnvalda vegna hárra vaxta og verðbólgu mótmælt.
Á mótmælafundinum fluttu þau Magnús Þór Jónsson, formaður KÍ, Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, Halla Gunnarsdóttir, varaformaður VR og Þórarinn Eyfjörð, formaður Sameykis þrumuræður við góðar undirtektir viðstaddra, sem létu ekki kulda og mikið rok á sig fá.
Sonja Ýr benti meðal annars í ræðu sinni á að framfarir yrðu ekki af sjálfu sér. Það væri ekki náttúrulögmál að lífsgæði bötnuðu frá kynslóð til kynslóðar. „Við verðum að horfast í augu við að í okkar litla, ríka samfélagi þrífst ójöfnuður og stéttskipting og metnað virðist vanta til að takast á við þann vanda.
Það er val að viðhalda óbreyttu ástandi í stað þess að vinna markvisst að framtíðarsamfélagi fyrir öll sem einkennist af mennsku.
Það er með samstöðunni sem við náum fram breytingum og sköpum réttlátt samfélag. Nú snúum við píramídanum við – við knýjum fram áherslur á þarfir fjöldans en ekki forréttindahópa,“ sagði hún meðal annars.
Myndir frá mótmælafundinum má sjá hér að neðan. Smellið á myndirnar til að sjá þær stærri