2024
Nýtt orlofshús risið í minningu Jóns Ásgeirs Jónssonar
Fréttir

Nýtt orlofshús risið í minningu Jóns Ásgeirs Jónssonar

Glænýtt orlofshús VM er nú risið á Einarsstöðum á Héraði. Húsið stendur á sama stað og eldra hús félagsins sem þar var fyrir.

Nýja húsið er 76 fermetrar að stærð með þremur svefnherbergjum. Tvö herbergin eru með hjónarúmum (160×200 cm) en eitt með koju þar sem neðri kojan er 140 cm en sú efri 70 cm.

Við húsið, sem er allt hið glæsilegasta, er steyptur pallur með hitalögnum og heitur pottur.

Húsið var byggt í minningu Jóns Ásgeirs Jónssonar, sem eftirlét félaginu eigur sínar. Utaná húsinu er að finna minningarskjöld en innandyra veggspjald með neðangreindum texta:

Vélvirkinn Jón Ásgeir Jónsson frá Galtarholti í Borgarhreppi (f. 20.06.1909, d. 11.02.1998) var félagsmaður í Félagi járniðnaðarmanna, sem stofnað var 11. apríl 1920. Það sameinaðist Vélstjórafélagi Íslands árið 2006, undir nafni Félags vélstjóra og málmtæknimanna (VM).

Jón Ásgeir var ötull baráttumaður réttinda og annarra hugðarefna stéttarinnar. Hann starfaði lengst af í vélsmiðju Rafmagnsveitu Reykjavíkur. Jón Ásgeir kvæntist Kristínu Helgadóttur (f. 16.09.1914, d. 29.08.2002). Þau áttu eitt barn, Helga Ásgeirsson (f. 10.05.1944, d. 31.05.2022).

Eftir fráfall Jóns Ásgeirs, á meðan Kristín lifði, var gengið frá erfðaskrá þeirra hjóna. Það var vilji þeirra að eftir dag Helga rynnu eigur þeirra til félagsins.

Helgi, sem setti mikinn svip sinn á miðborg Reykjavíkur, féll frá vorið 2022. Hann var ókvæntur og barnlaus en vann lengst af sem rukkari fyrir fyrirtæki í Reykjavík; starf sem í dag þekkist ekki í þeirri mynd sem þá var. Helgi var eftirminnilegur maður, reglusamur, elskulegur í samskiptum, mannvinur og dýravinur, eins og lesa má um í minningargreinum. Hann var sérstaklega næmur á fólk.

Þegar Helgi féll frá framfylgdu aðstandendur vilja foreldra hans og færðu VM að gjöf þær eigur sem eftir stóðu. Fyrir þá fjármuni var þetta hús endurbyggt.

Það er von VM að hér muni félagsfólk eiga góðar stundir um ókomin ár.