2023
Ályktun frá fulltrúaráði launamanna í Birtu
Fréttir

Ályktun frá fulltrúaráði launamanna í Birtu

Fulltrúaráð launamanna Birtu lífeyrissjóðs fundaði þann 20. september 2023. Á fundinum var eigendastefna sjóðsins rædd ásamt fjárfestingum sjóðsins. Einnig voru rædd í þaula málefni sem tengjast rannsókn Samkeppniseftirlitsins á samkeppnisbrotum Eimskips og Samskipa.

Eins og fram hefur komið hefur formaður stjórnar Birtu lífeyrissjóðs réttarstöðu sakbornings vegna málsins. Á fundinum viðruðu fundargestir þungar áhyggjur sínar af þeirri stöðu. Miklar umræður fóru fram um málið. Þær leiddu til þess að eftirfarandi ályktun var samþykkt:

Ályktun 

Fulltrúaráð launamanna Birtu lífeyrissjóðs gerir verulegar athugasemdir við setu Pálmars Óla Magnússonar í stjórn Birtu lífeyrissjóðs, á meðan hann hefur réttarstöðu sakbornings og í ljósi birtingu ákvörðunar Samkeppniseftirlitsins um brot Samskipa gegn banni við ólögmætu samráði. Pálmar Óli var framkvæmdastjóri millilandasviðs Samskipa á þeim tíma sem ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nær til. 

Seta Pálmars Óla í stjórn og sem stjórnarformaður Birtu lífeyrissjóðs getur haft þær afleiðingar að skaða ímynd Birtu meðal sjóðsfélaga og almennings og haft bein áhrif á trúverðugleika og orðspor sjóðsins. 

Fulltrúaráð launamanna Birtu lífeyrissjóðs skorar á Pálmar Óla Magnússon að stíga til hliðar á meðan rannsókn málsins stendur yfir. Ástæða þess er sú að fulltrúaráðið metur svo að Pálmar Óli uppfylli ekki lengur skilyrði greinar 5.3 samþykkta Birtu lífeyrissjóðs um gott orðspor, vegna fyrr greindra atriða.