2023
Um ásakanir fyrrverandi formanns
Pistlar

Um ásakanir fyrrverandi formanns

Í nýlegri grein sem birtist á Vísi veður Guðmundur Ragnarsson, fyrrverandi formaður VM, fram með stóryrðum og staðlausum fullyrðingum um félagið. Hann sakar stjórnendur þess um að brjóta lög ítrekað varðandi meðferð á fjármunum félagsins og gerir aukið samstarf VM við önnur félög tortryggilegt.

Það er sorglegt að sjá fyrrverandi formann VM ráðast ítrekað á félagið sitt með gífuryrðum. Þær fullyrðingar sem hann setur fram núna eru sömu fullyrðingar og formaðurinn fyrrverandi notaði í kosningabaráttu sinni fyrir ári síðan. Þeim var svarað þá, en það er kannski ágætt að svara þeim aftur hér.

Meðferð félagsins á fjármunum er í fullu samræmi við lög félagsins, en þar segir: „Stjórnin sér til þess að skipulag og starfsemi félagsins sé í góðu horfi og í samræmi við lög félagsins. Hún ber ábyrgð á fjárreiðum og eignum félagsins og sér til þess að fjármál félagsins séu jafnan í góðu horfi. Stjórnin tekur allar meiriháttar ákvarðanir sem snúa að fjármálum.“ Guðmundur er því ekki aðeins með alvarlegar ásakanir við mig, heldur stjórnina alla og starfmenn félagsins.

Þá fullyrðir Guðmundur að formaður og stjórn hafi stýrt hverjir kæmu á fulltrúaráðsfund í febrúar 2022, þar sem samstarf Húss fagfélaganna var kynnt, til að fá fyrirfram ákveðna niðurstöðu. Boðun á fundinn var eins og á alla aðra fulltrúaráðsfundi og sendi starfsmaður VM út fundarboð á alla fulltrúa sem rétt höfðu til að sitja fundinn.

Það er rétt að ítreka aftur við nafna minn að það er ekki verið að sameina félög eða sambönd sem koma að samstarfinu. Það er ekki verið að færa til samningsumboð félaganna. Samningsumboðið liggur hjá hverju félagi eða sambandi. Það er ekki verið að sameina sjóði: sjúkra-, félags-, orlofs-, sambands-, menningar-, eftirmenntunar- og vinnudeilusjóðir eru áfram hjá hverju félagi eða sambandi. Það er einungis verið að auka samvinnu félaganna; annars vegar félagslega, á sviði kjara- og réttindamála, og hins vegar varðandi ýmsa rekstrarþætti, til að lækka rekstrarkostnað félaganna. Markmið samstarfsins er alltaf að auka þjónustu við félagsfólk ásamt því að tryggja að iðnaðar- og tæknisamfélagið sé sterkt afl gagnvart atvinnurekendum og stjórnvöldum. Það gerum við best í sameiningu og rúmlega 14 þúsund félagsmenn þessara fjögurra félaga eru sterkari sameinaðir en sundraðir. Fulltrúaráðsfundur samþykkti áframhald verkefnisins.

Þá minni ég á að ég er alltaf tilbúinn til að setjast niður með félagsmönnum og ræða málin. Gagnrýni á alltaf rétt á sér, og er nauðsynleg, en stóryrði og staðlausar fullyrðingar eiga það hins vegar ekki.

Guðmundur Helgi Þórarinsson
Formaður VM