2023
Íslandsmót iðngreina: „Vélarnar hafa alltaf heillað mig“
Fréttir

Íslandsmót iðngreina: „Vélarnar hafa alltaf heillað mig“

Jakob Máni Jónsson er nemandi í Vélskólanum

Mín framtíð, Íslandsmót iðn- og verkgreina hófst í Laugardalshöll í dag, fimmtudaginn 16. mars. Óhætt er að segja að mikið hafi verið um dýrðir. Keppt er í 22 greinum auk þess sem 15 iðngreinar eru til sýnis.

Á meðal keppnisgreina er málmsuða en keppnin sjálf fer ekki fram í sýningarrými Laugardalshallarinnar, af öryggisástæðum. Hins vegar eru þar til sýnis, í bás á vegum IÐUNNAR og VM, tól og tæki sem tilheyra iðngreininni. Þar eru til að mynda athyglisverðir þjarkar (e. robots) á vegum Sameyjar og Mechatronic, sem eru samstarfsverkefni IÐUNNAR, Rafmennt, RSÍ og VM. Meghatronic er hugtak sem notað er til að lýsa skörun tveggja eða fleiri fagsviða, til dæmis um vélbúnað sem er samofinn rafeindabúnaði.

Hér fyrir neðan má sjá örmyndband af þrívíddarprentara sem er að smíða öxul eftir fyrirmynd sem er hinum megin þilsins.

 

Jakob Máni Jónsson, nemandi í Vélskólanum, er einn þeirra sem stendur vaktina í básnum og sýnir grunnskólanemendum og öðrum gestum mótsins, það sem fyrir augu ber. „Við erum hérna með suðuhermi, legumælingar og róbóta, svo eitthvað sé nefnt,“ segir hann.

Áætlað er að á bilinu sjö til átta þúsund grunnskólanemendur heimsæki Laugardalshöll á skólatíma á fimmtudag og föstudag. Jakob Máni segir að málmsuðan, og þau tæki sem til sýnis eru, höfði vel til ungs fólks. „Hér hafa komið ótrúlega margir gestir í dag. Þetta fag höfðar sérstaklega til krakka sem hafa áhuga á því að vinna með höndunum – þetta er afar fjölbreytt,“ segir hann.

Jakob Máni er úr Grindavík og segist alla tíð hafa verið mikið í kring um vélar. Það hafi þess vegna legið beint við að fara í vélanám. „Vélarnar hafa alltaf heillað mig. Það eru vélstjórar út um allt í samfélaginu og ég hlakka til að hefja störf,“ segir Jakob sem er á síðasta ári í náminu. „Þetta hefur gengið mjög vel hjá mér og ég er kominn með starf hjá Héðni þegar ég er búinn með skólann,“ segir hann að lokum.