2022
Afhverju geta sjávarútvegsfyrirtækin það ekki?
Pistlar

Afhverju geta sjávarútvegsfyrirtækin það ekki?

Af hverju geta sjávarútvegsfyrirtækin ekki greitt það sama í lífeyrissjóð og aðrir atvinnurekendur?

Nú eru kominn þrjú ár síðan kjarasamningar VM og annarra stéttarfélaga fiskiskipasjómanna losnuðu. Aðalkrafa sjómanna er að þeir fái sama greitt í lífeyrissjóð og aðrar stéttir í landinu. Kröfur sjómanna hafa verið metnar á 1,5 miljarð á ári í kostnað.  SFS (Samtök fyrir tækja í sjávarútvegi) hafa farið fram á það að ef þetta ætti að ganga yrðu sjómenn að gefa eftir í hlutaskiptunum sem næmi þessari upphæð. Launahlutfall í sjávarútvegi væri að sliga útgerðina.

Á síðasta ári voru greiddar 18,5 millj­arðar króna í arð út úr sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tækjum lands­ins og á árinu 2020 var greiddur út arður upp á 21,5 milljarða króna, eða samtals 40 milljarðar á tveimur árum. 2020 var greiddur  út 74 pró­sent af hagn­aði í arð­greiðsl­ur. Það hlut­fall var ekki nema rúm­lega 28 pró­sent í ár. Má því áætla að á síðastliðnum tveimur árum hafi hagnaðurinn verið 95 milljarðar.

Sjómannsstarfið er slítandi, erfitt og hættulegt starf, sem því miður leiðir stundum til þess að menn ná ekki að klára starfsævina, verða öryrkjar vegna líkamlegs slits eða slys. Þá þarf fólk að treysta á örorkutryggingu lífeyrissjóða, hærri innborgun tryggir hærri bætur.  Svo er ekki hægt að ganga að þeirri kröfu sjómanna að þeir fái greitt það sama í lífeyrissóð og aðrir.

Á  síðasta ári fjárfestu sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tæk­in fyr­ir 25 millj­arða. Á sama tíma treysta þau sér ekki til að fjárfesta í sjómönnum sínum fyrir einn og hálfan milljarð. Framkoma þeirra sýnir okkur að þeim er alveg sama um sjómennina sína. Það eina sem skiptir máli er hagnaður og arðgreiðslur sem þeir fá af sameiginlegri auðlind þjóðarinnar. Svo eru útgerðarmenn hissa á að ekki sé borin ómæld virðing fyrir þeim. Ég á þetta, ég má þetta.

Megi þeir hafa skömm fyrir framkomu sína.

Guðmundur Helgi formaður.