2022
Sjómenn og sjómannsfjölskyldur til hamingju með daginn
Pistlar

Sjómenn og sjómannsfjölskyldur til hamingju með daginn

Síðastliðin tvö ár hefur skipulagðri dagskrá Sjómannadagsráðs höfuðborgarsvæðisins verið aflýst vegna samkomutakmarkanna út af covid 19 faraldrinum, eins og víðast annars staðar. Því er það mjög gleðilegt að við getum aftur farið að halda upp á daginn með skipulagðri dagskrá.

Sjómannadagurinn var fyrst haldinn árið 1938 og hefur verið haldinn hátíðlegur síðan fyrir utan tvö síðustu ár.  Tilgangur og markmið Sjómannadagsráðs er meðal annars:

Að efla samhug meðal sjómanna og hinna ýmsu starfsgreina sjómannastéttarinnar og vinna  að nánu samstarfi þeirra.

Að heiðra minningu látinna sjómanna og sérstaklega þeirra sem látið hafa líf sitt vegna slysfara í starfi.

Það má segja að þessi áhersluatriði séu jafn mikilvæg í dag og þau voru þá. Sem betur fer hefur okkur tekist með samstilltu átaki sjómanna og útgerðarmanna að fækka slysum verulega til sjós og höfum átt nokkur ár án banaslysa. Má þar þakka góðu starfi Slysavarnaskóla sjómanna og eiga þeir hrós skilið. Þrátt fyrir það, því miður eru slys samt enn alltof mörg og sum mjög alvarleg.

Þrátt fyrir betri aðbúnað og oft góð laun gengur ekki vel að fá ungt fólk til sjós. Eitt af því sem fælir fólk frá er sú neikvæða umræða sem er um útgerðir landsins.

Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra er nýbúin að skipa annarsvegar stóra samráðsnefnd með aðkomu allra þingflokka og helstu hagsmunaaðila en líka sérfræðingahópa sem eru ekki með beinar flokkspólitískar tengingar. Starfshóparnir eiga að greina áskoranir og tækifæri í sjávarútvegi og tengdum greinum ásamt því að meta þjóðhagslegan ávinning.

Talað er um ógagnsæi í rekstri fyr­ir­tækja í sjáv­ar­út­vegi og þá sér­stak­lega meðal stærstu fyr­ir­tækja lands­ins.  Þá eru stöðugar fréttir um stórgróða útgerðarinnar. Síldarvinnslan hagnaðist um tæp­lega 3,6 millj­arða ís­lenskra króna á fyrsta fjórðungi árs­ins og hagnaður Brims nam á fyrsta árs­fjórðungi um 3,8 millj­örðum króna.

Á sama tíma gengur ekkert hjá stéttarfélögum sjómanna að semja við SFS, en kjarasamningar hafa verið lausir í 31 mánuð og aðalkrafa þar er að sjómenn fái það sama greitt í lífeyrissjóð og annað launafólk, það er 15,5%. Þar áður voru samningar lausir í sex ár.

Það er ótrúleg framkoma hjá útgerðarmönnum að geta ekki sæst á það að lágmarksiðgjaldið komi til sjómanna eins og til annarra starfsstétta. Að geta neitað sjómönnum um kjarasamning svo árum skiptir nema þeir greiði fyrir það með eftirgjöf annars staðar, flokkast undir ofbeldi. Á sama tíma og afkoman í sjávarútvegi hefur aldrei verið meiri.

Þá vil ég benda á viðtal við Indriði H. Þorláksson, fyrrverandi ríkisskattstjóri og ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu. Þar segir hann m.a. „Sjávar­út­vegs­risarnir hafa ýmsar leiðir til að sneiða hjá veiði­gjöldum, svo sem að færa hagnað á vinnslu.“ Einnig segir hann „Stórbætt afkoma útgerðanna vegna hækkunar á fiskverði erlendis skili sér beint í vasa útgerðarinnar, því hlutaskiptaverð sjómanna miðist ekki við verð á erlendum mörkuðum og fólk sem starfi í frystihúsum fái ekki launahækkun vegna hærra verðs.“

Ég vil skora á útgerðina að ná sátt við sitt fólk og ganga til samninga við sjómenn. Kjarasamningar snúast um það að atvinnulífið og launafólk skipti með sér þeim ábata sem myndast og það er á hreinu að ábati sjómanna af heildarkökunni er alltaf að minnka. Þrátt fyrir að sjómenn séu á hlutaskiptum að þá minnkar ábati sjómanna vegna ógagnsæis í fiskverði.

Vonandi tekst okkur í sameiningu að ná sátt um atvinnugreinina svo hún öðlist þá virðingu í hugum manna sem hún á skilið.

Að lokum vil ég óska sjómönnum og fjölskyldum þeirra til hamingju með daginn.

Guðmundur Helgi Þórarinsson, formaður VM