2022
Trúnaðarmannafundur og staða fiskiskipasjómanna
Pistlar

Trúnaðarmannafundur og staða fiskiskipasjómanna

Það var ánægjulegt að hitta trúnaðarmannaráð VM á fimmtudaginn var á staðfundi. Það minnir okkur á að takmarkanir eru að minnka að geta loksins kallað saman almennilegan fund. Fundirnir verða alltaf persónulegri og skilvirkari þegar fundirnir eru staðfundir.

Á dagskrá trúnaðarmannafundarins var kynning um samstarf iðnfélaganna á Stórhöfða sem stjórn VM var búið að fjalla um og samþykkja með fyrirvara um að trúnaðarráð myndi einnig samþykkja.

Kynntar voru hugmyndir af öflugu samstarfi sem passar þó upp á fullt sjálfsstæði félaganna. Trúnaðarmannaráðið samþykkti að halda áfram með samstarf Fagfélaganna með 89,5% samþykki. Það var hressandi að sjá hvað trúnaðarráðið er samstíga stjórn félagsins í þessu máli.

Í ár og í byrjun næsta árs eru fjölmargir kjarasamningar lausir. Þessi fundur markar einnig upphaf undirbúningur kjarasamninga þar sem ákveðið var hvernig skipan samninganefnda færi fram og kosinn var formaður samninganefndar almenna kjarasamningsins. Páll Heiðar Magnússon Aadnegard trúnaðarmaður VM hjá Eimskip tók það verkefni af sér, þakka ég honum fyrir það en Páll hefur áður setið í samninganefnfd þó ekki sem formaður.

Staða hjá fiskiskipasjómönnum

Fiskiskipasjómenn eru enn með lausa samninga eins og flestir vita, það er samtal í gangi en það gengur þó mjög hægt. Ég er að vona að meiri skriður fari að komast á þau mál. Enda sýna útgerðarfyrirtækin það þessa dagana að þau hafa vel efni á að ganga að kröfum sjómanna. Brim, Síldarvinnslan og fl sýna mikinn hagnað og má gera ráð fyrir að hann verði enn hærri á þessu ári, enda stór loðnuvertíð í gangi.

Það verður ekki unað við þessa stöðnun lengur og hvet ég útgerðarmenn til þess að taka ábyrgð á stöðu mála og klára samninga við sitt fólk.