2022
Samvinna stéttarfélaga
Pistlar

Samvinna stéttarfélaga

Frá því að ég tók við sem formaður VM 2018 hef ég talað fyrir samvinnu stéttarfélaga. Samvinnu á þá leið að félög eiga að vinna saman að sameigenlegum kröfum en halda í sjálfstæði sitt á þeim stöðum þar sem kröfur eru ekki sameiginlegar.

Samvinna iðnaðarmanna í landi hefur gengið mjög vel frá árinu 2019. Ég fann það í kjarasamningunum 2019 þegar við gerðum lífskjarasamninginn að það skilaði okkur miklu að sitja saman við samningarborðið með öllum iðnaðarmannafélögunum. Síðan þá hefur samvinna iðnaðarmannafélaganna aukist en hún hefur að mestu leiti verið óformleg. Núna er verið að formgera samvinnuna.

Ég er líka mikill talsmaður þess að sjómannafélögin hafi sem mesta samvinnu sín á milli. Samvinnan þar hefur batnað mikið á síðustu árum og er það þannig núna að öll sjómannafélög landsins sitja saman hjá ríkissáttasemjara við samningaborð fyrir hönd fiskiskipasjómanna. Það er mikið framfaraskref því ég er þess fullviss að félagsmenn okkar fái betri kjör með því að standa saman, tel okkur alltaf sterkari saman.

Fagfélögin 2F er ekki nýtt verkefni, stéttarfélögin að Stórhöfða 31 hafa notað þetta félag í nokkur ár til þess að halda utan um sameiginleg mál, stjórn félagsins hefur verið samþykk því að VM komi þar inn einnig til þess að ná upp enn betri þjónustu og lækka kostnað.

Ekki einu sinni hefur verið rætt um það að félögin gefi eitthvað eftir af sjálfstæði sínu og ekki einu sinni hefur verið rætt um sameiningu félaga, það er ekki upp á borðinu og mun ekki vera upp á borðinu. Félögin halda á sínum samningsumboðum, verða sjálfstæð og ráða sér sjálf. Fagfélögin sjá um sameiginleg mál og hjálpar okkur félögunum að hafa hærri rödd út á við, gegn atvinnurekendum og stjórnvöldum. Það er ekki verið að fara að seinafélög, það er ekki verið að framselja vald og það er ekki verið að sameina sjóði.

Kostnaðarauki VM fyrsta starfsárið er áætlaður á milli 10-20 milljónir vegna þessa samstarfs. Á móti þeim kostnaðarauka er þó Fagfélagið strax byrjað á hagræðingaraðgerðum fyrir félögin. Sem dæmi hefur VM greitt Birtu lífeyrissjóði fyrir að innheimta iðgjöld fyrir VM. Félögin fóru öll saman til fundar við Birtu með það að markmiði að lækka kostnað félaganna vegna þessa. Innheimtukostnaður VM lækkar um 40% frá og með 2021, en félagið hefur verið að borga 16-18 milljónir á ári fyrir þessa þjónustu.

Ég hlakka til að kynna þessar hugmyndir iðnaðarmannafélaganna fyrir trúnaðarráði í næstu viku. Mín bjargfasta trú er sú að samvinna mun skila okkur lengra, ég ítreka það líka að engar sameiningar eru á döfinni og að samningsumboðið verði óbreytt.

Fyrst og fremst snýst þetta þó um að kjör okkar félagsmanna verði sem allra best og ég trúi því að kjörin verði best þegar iðnaðarmenn standa saman að bæta þessi kjör. Hagsmunir okkar liggja jú að miklu leiti saman.

Ef félagsmenn hafa spurningar ekki hika við að hafa samband.

Guðm. Helgi formaður VM

Gudm.helgi@vm.is